Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var endurómur af því sem við höfum heyrt frá Framsóknarflokknum í dag. Að einhverju leyti var lýst yfir vantrausti á rannsóknarnefndir Alþingis. Mér finnst það miður því að ég held að lykilatriðið, ég er sammála hv. þingmanni um það, sé að tryggja að við getum byggt upp traust í tengslum við sölu bankanna, að sagan endurtaki sig ekki, að við lærum af reynslunni. Það er mikilvægt að allt verði upplýst í þessu máli af því að við þurfum að vera með almenning með okkur þegar við erum að selja hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það. Eðlilega hafa komið fram spurningar um það hvort heimildir Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins, sem vel að merkja er ekki að skoða ráðuneytið, það hefur ekki það hlutverk, séu nægjanlega víðtækar til að upplýsa nákvæmlega um framkvæmd allrar sölunnar. Kannski hef ég verið að misskilja hv. þingmann en er það þannig að hv. þingmaður treystir ekki rannsóknarnefndum Alþingis, í ljósi sögunnar, til að fara ofan í kjölinn á þessu máli? Ég hélt að við þyrftum að nálgast hlutina þannig að við viljum upplýsa allt, ekki bara einhverja ákveðna hluti sem Ríkisendurskoðun hefur einmitt fullar heimildir til að upplýsa. Ég óska eftir því að ekki verði snúið út úr þessu, eins og t.d. hefur verið gert af hálfu hv. þm. Ágústs Bjarna Garðarssonar, á þann veg að við treystum ekki Ríkisendurskoðun, það er ekki það.

Í öðru lagi langar mig að benda á: Var það ekki bara ríkisstjórnin sjálf sem í byrjun lýsti yfir vantrausti á Ríkisendurskoðun? Ríkisstjórnin lýsti því yfir að málið ætti fyrst að fara til Ríkisendurskoðunar en áður en Ríkisendurskoðun var búin að klára málið var ríkisstjórnin búin að slátra Bankasýslu ríkisins. Fara hljóð og mynd saman hjá ríkisstjórninni? Er það ekki fyrst og fremst hún sem er að slá tóna sem fela í sér vantraust á Ríkisendurskoðun?