Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar. Þegar maður skoðar lögin, leiðarstef og markmið sem þar eru teiknuð upp, um gagnsæi, um jafnræði, um hlutlægni, og það markmið að efla virka samkeppni finnst mér það reyndar sjálfstætt vandamál við þessa sölu að samkeppnisþátturinn hafi einhvern veginn gleymst, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því með öðrum hætti. En mér hefur fundist, þegar stjórnarliðar hafa tekið til máls og kallað eftir því og lýst því yfir að þeim finnist sem vantað hafi upp á gagnsæi, að vantað hafi upp á upplýsingagjöf og leggja þurfi spilin á borðið, að þá sé bara verið að horfa á framkvæmdaraðilann þar. Ég held að það myndi skipta miklu fyrir allan almenning í landinu, ef það er keppikefli ríkisstjórnarinnar að efla traust að nýju, að við fáum að heyra söguna af því hvert hið pólitíska samtal var á stjórnarheimilinu í aðdraganda sölunnar, í aðdraganda útboðsins. Hver voru markmiðin? Hver voru samtölin? Að hverju var stefnt? Hvers vegna varð það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að fara í lokað útboð í þessari atrennu? Það má vel rökstyðja það. En þetta opna og gagnsæja samtal, það hefur skort á það í aðdraganda útboðsins. Það er náttúrlega augljóst mál að stjórnarliðar eru á miklum flótta undan óþægilegu máli en ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji efni og ástæðu fyrir ráðherrana, t.d. í ráðherranefnd um efnahagsmál, að leiða þetta samtal en beina kastljósinu ekki eingöngu að Bankasýslunni.