Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Birting listans lýtur ekki að undirbúningi og framkvæmd útboðsins sjálfs. Varðandi hitt sem hv. þingmaður nefndi þá vil ég kannski fá að spyrja hv. þingmann: Finnst henni þetta ekki hafa staðið upp á hæstv. fjármálaráðherra, í ljósi þess hve hann fer með ofboðslega ríkt hlutverk samkvæmt lögum um sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þegar kemur að því að taka ákvörðun um sölu, taka afstöðu til tillagna sem koma fram og í raun marka sölunni allri ákveðna forskrift? Finnst hv. þingmanni það sanngjarnt að ætlast endilega til þess að Bankasýslan sjálf sé einhvern veginn að smíða svoleiðis reglur ef ekki er gert ráð fyrir þeim í þeirri forskrift sem ráðherrann leggur upp með, í ljósi þess hve ráðherrann fer með ofboðslega ríkt hlutverk og á að vaka yfir öllu þessu ferli, setja rammann fyrir fram og koma að ákvörðunum (Forseti hringir.) á öllum stigum ferlisins? Er þetta ekki einmitt dæmi um atriði sem er, ef okkur finnst hafa skort upp á, á beinni ábyrgð ráðherra frekar en á ábyrgð Bankasýslunnar?