Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[01:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst mjög merkilegt að hægt sé að segja að öll helstu markmiðin hafi náðst en samt hægt að klúðra svo miklu á sama tíma, að ráðherra selji fjölskyldumeðlimi, að söluaðilar séu mögulega að selja sjálfum sér eða tengdum aðilum, allt í nafni þess að ná helstu markmiðunum sem eru samt frekar óljós. Heilbrigt eignarhald til lengri tíma, hvert var markmiðið? Dreift eignarhald, hvernig lítur það út? Hvernig leit það út fyrir fram? Hvernig vitum við að því markmiði sé í raun náð? Ég held að því hafi örugglega verið náð en hverjar voru væntingarnar? Það var líka sagt í seinni sölunni að það væri til að ná dreifðu eignarhaldi að hleypa minni aðilunum að. Eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni erum við búin að fá 100 til 110 milljarða fyrir söluna, (Forseti hringir.) en hefðum við ekki viljað 30 milljörðum meira sem er 1%, heilt prósent, af vergri landsframleiðslu ársins á Íslandi, þ.e. munurinn á því hvert markaðsverðið varð og (Forseti hringir.) hvert markaðsverðið var sagt í frumútboðinu? Við töpuðum 30 milljörðum þar, er það ekki eitthvað sem við eigum að sakna?