Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað fannst henni um kynningu umsagnaraðila og annarra á því hvað væru hæfir fagfjárfestar? Í umsögnum þeirra sem komu fyrir nefndina voru alltaf tekin hliðstæð dæmi, svona eins og lífeyrissjóðirnir. Það verða örugglega lífeyrissjóðirnir sem eignast þetta, var í raun það sem sumir umsagnaraðilar sögðu þegar allt kemur til alls. Þeir væru þeir einu sem væru með bolmagn til að koma inn í söluna, alla vega hér á Íslandi, miðað við forsendur um stærri hluta. Nú kom fram í dag hjá hæstv. ráðherra að þeir hefðu ekki viljað lífeyrissjóðina, einmitt út af samkeppnissjónarmiðum, og þar af leiðandi komið í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir eignuðust stóran hlut í þessari sölu. En það var að koma tilkynning frá LSR um að þeir væru komnir yfir 5%, þeir eignuðust bara samt stærri hlut. Það kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar, minnir mig, að það hafi þá verið á kostnað lífeyris okkar. Afslátturinn fór til þeirra sem náðu að koma inn í afslættinum. Lífeyrissjóðurinn var skertur þar og þurfti að kaupa sig inn á hærra verði seinna, á kostnað okkar allra.