Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég bara sé þetta ekki í sama ljósi og hv. þingmaður. Þegar hv. þingmaður talar um kostnað okkar allra þá held ég einmitt að við séum öll að uppskera alveg gríðarlega með Íslandsbanka. Minnum okkur á að við fengum bankann í fangið án endurgjalds. Ég veit að það varð hrun og við tókum ýmislegt á okkur en það hefur verið búið til gígantískt verðmæti úr þessum banka. Í dag erum við búin að fá 108 milljarða inn af þessari sölu og eigum enn rúm 42%, auk þess sem við höfum fengið þessar arðgreiðslur. Hagnaður þjóðarinnar allrar er mikill eftir það sem hefur tekist að gera með Íslandsbanka. Og svo skulum við líka muna að það er auðvitað fólkið í landinu sem á lífeyrissjóðina. Hver var aftur hin spurning hv. þingmanns — um hæfa fjárfesta. Ég hef líka farið yfir það að ég taldi að þetta yrðu frekar stórir fjárfestar en það var alveg skýrt hvað væru hæfir fjárfestar. Aftur á móti finnst mér alvarlegri — jú, það er alveg skýrt í lögunum og það er skýrt tekið fram í gögnunum — þær sögusagnir sem maður heyrir, að einhverjir söluaðilar hafi mögulega verið að (Forseti hringir.) breyta skráningu sinna viðskiptamanna. Ef það er raunverulega satt þarf auðvitað að fara ofan í það. Það hlýtur þá hreinlega að vera lögbrot ef eitthvað er til í þeim sögusögnum.