Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vildi einmitt nefna þetta sem fram kom áðan hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Mér finnst að umræðan hér í dag í þessu máli hafi á margan hátt verið til fyrirmyndar að því leyti til að stjórnarþingmenn hafa tekið mjög virkan þátt. Þeir hafa jafnvel gefið sér tíma til að koma upp í andsvör við okkur stjórnarandstæðinga og komið af stað alvörurökræðu um þessa bankasölu. Fyrir vikið er maður ansi margs vísari, verð ég að segja. Ég myndi gjarnan vilja sjá þessa dínamík oftar í þingsal því að ég held raunverulega að þetta bæti starfið og störfin okkar hér á þingi.

Ég ætla líka að fá að segja að mér hefur oft fundist hæstv. fjármálaráðherra vera duglegur að sitja yfir umræðum í gegnum tíðina, einkum og sér í lagi fannst mér það þegar við vorum að ræða mál tengd efnahagsaðgerðum út af Covid og einhverju slíku. Og já, ég get alveg tekið undir að það væri ekkert verra að fá hann til að ramma þetta aðeins inn. En aðallega vildi ég nú bara að fagna því að stjórnarliðar hafa tekið mikinn og virkan þátt í þessari umræðu og það er mjög vel.