Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[11:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað búið að vera hálfgert ófremdarástand í nokkurn tíma og verður áfram þangað til við finnum þetta jafnvægi. Á meðan þurfum við auðvitað að vera alltaf á vaktinni og þess vegna brugðumst við við á síðastliðnu ári og núna síðast um áramótin. Við hækkuðum til að mynda húsnæðisbætur á síðasta ári um 24% og við víkkuðum verulega bæði þann fjölda og jukum stuðning við þá sem njóta vaxtabóta með aðgerðum okkar sem voru samþykktar hérna á þinginu við gerð fjárlaga. Við erum líka að segja og munum segja í þessari húsnæðisstefnu, og erum að framkvæma það með þessum samningum við sveitarfélögin, byggt á rammasamkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga frá síðastliðnu sumri um tiltekinn fjölda íbúða, að 35% íbúða á næstu árum verði byggðar með einhvers konar opinberum stuðningi, þ.e. að við fjölgum almennum íbúðum með stofnframlögum. Það er eitthvað sem gerist bara mjög hratt, að auka við og bæta hlutdeildarlánafyrirkomulagið fyrir þá sem geta keypt íbúð með opinberum stuðningi. Það er aðferð sem virðist vera að virka mjög vel og við þurfum einfaldlega að endurbæta það sem við sáum að fór úrskeiðis vegna þessara miklu hækkana sem voru á síðustu árum og við höfum ýmsar aðrar leiðir til að koma þessum framkvæmdum af stað. Valkosturinn sem við stöndum frammi fyrir er sá að við séum ekki með svona stefnu, við séum ekki að bregðast við með þessum hætti og þá bara vitum við hvað gerist. Við getum horft nokkra áratugi aftur í tímann. Núna kemur uppbyggingarstopp. Þá koma síðan nokkrir árgangar inn á markaðinn eftir nokkur ár og eftirspurnin rýkur upp og verðin rjúka upp og við erum aftur komin í það. Hér erum við að stíga inn með miklu betri upplýsingar vegna vinnu okkar síðastliðin misseri og ár til að geta sett fram raunverulega stefnu og framkvæmt hana. (Forseti hringir.) Og við getum ekki framkvæmt hana nema með sveitarfélögunum og þess vegna erum við að gera samninga við þau. Þannig að ég held að við séum á mjög góðri leið hvað þetta varðar.