Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:16]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Tillagan eins og hún liggur fyrir mun draga úr heildartekjum Ríkisútvarpsins. Það ætti ekki að koma neinum í þessum sal á óvart að ég hef verið þeirrar skoðunar að umfang Ríkisútvarpsins sé of mikið, ekki bara hvað varðar yfirburðarstöðu þess gagnvart einkareknu miðlunum heldur bara sé horft á það eitt og sér. Við erum núna að sigla inn í fyrsta árið þar sem Ríkisútvarpið hefur úr að spila rúmum 8.000 milljónum þegar allt er talið til. Ég held að ég muni þessar tölur nokkurn veginn rétt. Ég kom inn á í ræðu minni áðan gagnrýni Ríkisendurskoðunar, fjölmiðlanefndar, svo dæmi séu tekin, á það hvernig Ríkisútvarpið hefur gengið fram og ég held að það sé raunverulegt svigrúm til endurskoðunar á heildarumhverfi og -hlutverki Ríkisútvarpsins. Ég get alveg tekið undir það sem lá í orðum hv. þingmanns, það væri skynsamlegt að fara í þá endurskoðun fyrst áður en grundvallarbreyting verður á tekjustofnum Ríkisútvarpsins. En það er nú þannig með svo margt undir verndarvæng þessarar ríkisstjórnar sem við sitjum uppi með að það gerist ekki neitt þegar kemur að því að endurskoða regluverk, sama hvort það er Ríkisútvarpsins eða annarra þátta, alla vega gerast hlutir mjög hægt oft á tíðum. En til að svara spurningunni beint: Ég sé fyrir mér minnkað umfang Ríkisútvarpsins þó að þetta sé ekki sérstakt markmið. Alþingi gæti tekið þá ákvörðun að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið. Það er að mínu mati önnur ákvörðun sem yrði tekin í gegnum fjárlög með einum eða öðrum hætti. En með aukið umfang ríkisútgjalda í huga þá held ég að Ríkisútvarpið ætti ekki að vera undanþegið þeirri umræðu.