Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:51]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir þau sjónarmið sem snúa að mikilvægi starfsemi Ríkisútvarpsins úti á landi sem mér hefur einmitt þótt verða nokkur afgangsstærð á seinni árum. Þá er ég að tala um að miðað við starfsemi Ríkisútvarpsins eins og hún er þá sé hlutfallslega minni áhersla á landsbyggðarsvæði heldur en maður vildi gjarnan vilja sjá. Það er nú ein þjóðargersemin sem varð að nokkru leyti til í svæðisbundinni stöðu hjá Ríkisútvarpinu eftir að hafa stofnað Skessuhorn á fyrri stigum, Gísli S. Einarsson, sem við njótum í Landanum mjög reglulega. Ég held að starfsemi svæðisbundnu skrifstofa Ríkisútvarpsins geti stutt við staðbundnu miðlana ef rétt er á haldið. Nú er ég að tala eftir minni en ég held að fulltrúar N4, þegar sú umræða var í gangi nýlega, hafi að einhverju marki kveinkað sér undan því með hvaða hætti ríkismiðillinn gekk fram gagnvart því fyrirtæki. En þessi minnkaða áhersla sem hefur verið á landsbyggðina, hvað telur hv. þingmaður að orsaki það? Er það svona gamla vonda tilhneigingin að það sé auðveldara að segja upp fólki á fjærsvæði heldur en fólkinu sem þú hittir við kaffivélina á hverjum degi, í þessu tilviki í Efstaleitinu? Eða er það eitthvað annað sem hv. þingmaður telur orsaka það? Við sjáum t.d. að enn hefur ekki verið ráðið í stöðu fréttaritara á Vesturlandi og Vestfjörðum um allnokkra hríð og mér vitanlega er engin breyting fyrirhuguð þar á. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvað orsakar þessa breytingu, því þessi ákvörðun er auðvitað stjórnunarlegs eðlis á endanum?