Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:53]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að hv. þingmaður hafi raunverulega svarað sér sjálfur, ég er bara sammála. Það er erfiðara að fara í sparnaðinn gagnvart þeim sem búa þér nær, eru þér nær, samstarfsmenn á plani, það er auðveldara að fara gegn þeim sem eru lengra í burtu og ég held að þetta hafi verið mjög áberandi þarna á sínum tíma. Það var farið í mjög miklar sparnaðaraðgerðir hjá RÚV og ég hugsa að hlutfallslega hafi verið farið alveg gríðarlega mikið gegn svæðisútvörpunum, langt umfram það sem við sáum í höfuðstöðvunum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og ekkert falið þá skoðun mína neins staðar í gegnum tíðina. Ég held bara að þetta hafi verið gríðarlega mikilvæg starfsemi. Ég finn að svona efnisleg umræða og lýðræðisleg umræða t.d. á Norður- og Austurlandi er ekki með sambærilegum hætti og hún var fyrir tíu, fimmtán árum í svæðisútvörpunum. Það er bara þannig. Það var farin sú leið að það átti að efla samfélagsmiðla, netið, netfréttir og annað. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Sú lýðræðislega umræða sem var á svæðisútvarpsstöðvunum skín ekki í gegnum netfréttir eða samfélagsmiðla. Við þekkjum það að það gengur á ýmsu oft á samfélagsmiðlum sem er nú ekki allt gott og það er mjög erfitt að halda uppi agaðri og góðri umræðu þar. Þannig að ég held að þetta sé eins og kom fram, að þetta snúi fyrst og fremst að því að það var farið hart gegn þeim sem voru fjær en minna gert hjá þeim sem stóðu nær.