Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almenn hegningarlög.

35. mál
[14:35]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Virðulegur forseti. Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? spurði Jón Hreggviðsson eftirminnilega í skáldsögunni Íslandsklukkan. Svarið við þessari spurningu má reyndar finna kirfilega skilgreint í XXIII. kafla hegningarlaga. Ef Laxness hefði hins vegar fjallað um XXII. kafla hegningarlaga, sem hann gerir í raun í öðrum verkum á borð við Sjálfstætt fólk, þá myndi spurningin sennilega hljóða einhvern veginn svona: Hvenær hefur maður samræði við barn og hvenær hefur maður ekki samræði við barn? Það er einmitt þessi spurning sem er meginviðfangsefni frumvarpsins sem ég kynni fyrir ykkur í dag.

1. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Alþingi lögfesti hinn 20. febrúar 2013 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.“

Í 1. gr. lögræðislaga sem upphaflega voru samþykkt sem lög frá Alþingi í maí 1997 og síðast breytt í júní á síðasta ári stendur, með leyfi forseta: „Lögráða verða menn 18 ára. Lögráða maður er sjálfráða og fjárráða.“ Ljóst er að lagaleg skilgreining hugtaksins barn er afar skýr. Ef þú ert 17 ára eða yngri ert þú barn í augum laganna.

Fjallað hefur verið um kynferðisbrot gegn börnum í hegningarlögum í gegnum tíðina, til að mynda segir í hegningarlögum þeim er Kristján IX samþykkti til handa Íslendingum árið 1869 að kynferðisbrot gagnvart börnum séu skilgreind sem kynferðismök við 12 ára eða yngri. Við gagngera endurskoðun hegningarlaga árið 1940 var sá aldur svo hækkaður í 14 ár, nema þegar um aðila af sama kyni var að ræða; þá voru 18 ár talin heppilegri. Í greinargerð með lögunum árið 1940 voru ekki gefnar neinar sérstakar ástæður fyrir því að hækka aldurinn en gera má ráð fyrir að hækkunin endurspegli breytt siðferðismat á þeim rúmlega 70 árum sem liðu á milli þessara útgáfna laganna.

Frá árinu 1940 liðu svo aftur sjö áratugir þar til kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga var tekinn til heildrænnar endurskoðunar. Árið 2007 voru gerðar breytingar til hins betra frá því sem áður var. Með lögum nr. 61/2007 var kynferðislegur lögaldur hækkaður úr 14 árum í 15 ár. Í greinargerð frumvarpsins segir að íslensk börn byrji mörg að stunda kynlíf í kringum 15 ára aldur og því sé varhugavert að hækka aldurinn enn frekar til að öruggt sé að tveir einstaklingar á svipuðum aldri sem eigi í kynferðislegu sambandi fyrir lögaldursmörkin sæti ekki refsingu fyrir, einkum með tilliti til þess ef foreldri annars þeirra er illa við ráðahaginn. Á þeim tíma virðist ekki hafa verið tekið tillit til þess að þegar hafi ákveðinn varnagli verið sleginn í þessu samhengi með hinu svokallaða Rómeó og Júlíu ákvæði, en í því felst að samræði milli einstaklinga undir 15 ára aldri sé ekki refsivert þegar málsaðilar eru á svipuðum aldri.

Miðað við röksemdafærslurnar sem finna má í greinargerð með lögum nr. 61/2007 mætti ætla að það gæti orðið viðvarandi vandamál að foreldrar barna yngri en 15 ára kærðu kynferðislegt samneyti þeirra við eldri einstakling þrátt fyrir að hann kynni að vera aðeins nokkrum árum eldri. Hins vegar hafa engir slíkir dómar fallið hérlendis þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að allt að 20% unglinga undir 15 ára aldri hafi byrjað að stunda kynlíf fyrir lögaldur. Það var því kannski lítil ástæða til að hafa áhyggjur af þessum tiltekna vinkli málsins. Aftur á móti hefur það komið í ljós í gegnum umræðu undanfarinna ára og tilkomu magnaðra fjöldahreyfinga á borð við metoo-byltinguna sem hefur skekið samfélagið allt að áherslan hefði kannski átt að vera annars staðar. Til að mynda virðist vera gert ráð fyrir því í núgildandi lögum að börn 15 ára og eldri séu nægilega þroskuð og reynd til að réttlætanlegt sé að veita þeim sjálfsákvörðunarrétt til þess að stunda kynferðismök með fullorðnum einstaklingum, að því gefnu að fjölskyldu- og forræðistengsl séu ekki á milli þeirra.

Það sem er virkilega varhugavert hér er að ekkert aldursviðmið hafi verið sett upp á við fyrir þetta sjálfsákvörðunarráðrými barnsins. Því má færa fyrir því rök að þar með leggi löggjafinn blessun sína yfir kynferðislegt samband á við það sem stóð á milli 15 ára barns og 59 ára einstaklings og reynt var á fyrir íslenskum dómstólum.

Þegar eru fyrir hendi svokölluð tælingarákvæði sem eiga að veita börnum á aldrinum 15–17 ára ákveðna vernd, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Varðandi 1. mgr. 201. gr. hegningarlaga hefur reynst óljóst hvað fellur nákvæmlega undir trúnaðarsamband milli fullorðins einstaklings og barns sem oft leiðir til þess að meintur gerandi er sýknaður. Þetta sýna t.d. nýlegir dómar þar sem umsjónarmaður í sumarbúðum var ekki talinn falla undir þessi viðmið.

Varðandi 3. mgr. 202. gr., er börnum á aldrinum 15–17 ára veitt vernd upp að vissu marki gagnvart kynferðislegu samneyti við fullorðna einstaklinga að því gefnu að gerandinn hafi beitt blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælt barn til samræðis eða annarra kynferðismaka. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að sannreyna slíkt fyrir dómstólum. Dómstólar hafa t.d. virt það til sýknu ef brotaþoli hafði samband við geranda að fyrra bragði. Í þeim tilvikum þar sem hefur verið sakfellt hefur þurft mikið til, svo sem gríðarlegan aðstöðu- eða þroskamun, langvarandi tímabil og þess háttar. Bendir það til þess að skilyrðin séu of þröng. Eins og ég nefndi í upphafi þá segir í barnalögum, nr. 76/2003, og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013, að börn séu skilgreind sem einstaklingar undir 18 ára aldri og að rétt þyki að veita þeim ríkari vernd en fullorðnum með tilliti til þroska þeirra, vitsmuna og aðstöðu.

Á undanförnum árum hefur verið ákall frá samfélaginu um að ganga lengra til að tryggja réttarvernd barna gagnvart kynferðislegri misnotkun af hálfu fullorðinna einstaklinga. Þá hefur einkum verið í umræðunni hversu skammt sú réttarvernd nær sem ætluð er 15–17 ára börnum. Síðan hegningarlögin voru síðast endurskoðuð eru liðin 15 ár. Á þeim tíma hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu þegar kemur að kynferðisbrotum og kynferðislegri misnotkun. Ýmis mál hafa verið í deiglunni undanfarið sem var jafnvel ekki vitneskja um að ættu sér stað árið 2007, t.d. þau tilfelli þegar fullorðinn einstaklingur byggir upp trúnaðar- og tilfinningasamband við barn svo hann eigi auðveldara með að hafa aðgang að því til að misnota það kynferðislega, nokkuð sem er á ensku, með leyfi forseta, kallað „grooming“. Hugtakið er víðtækara en tælingarákvæði íslensku laganna í 3. mgr. 202. gr. og mun víðtækara en það trúnaðarsamband sem kveðið er á um í 1. mgr. 201. gr. Það er eftir sem áður einnig alvarlegt og töluvert algengara en flest gera sér grein fyrir, sér í lagi með tilkomu samskipta í gegnum internetið. Oft er sambandið með þeim hætti að fullorðni einstaklingurinn byggir upp þetta trúnaðarsamband og samband við barn meðan það er yngra en 18 ára, en sambandið er síðan opinberað þegar barnið verður lögráða. Í ljósi þess hve auðginnt börn geta verið þar sem þau búa ekki yfir reynsluheimi fullorðinna, er full ástæða til þess að taka þessi mál fastari tökum. Í dag er nánast algert lagalegt tómarúm þegar kemur að þessum tilvikum. Með því að hækka kynferðislegan lögaldur í 18 ár má grípa þessi tilvik og tryggja börnum á aldrinum 15–17 ára þá vernd sem löggjafanum ber að gera.

Í frumvarpi þessu er ekki lagt til að fella brott svokallað Rómeó og Júlíu ákvæði í 2. málslið 1. mgr. 202. gr., sem tryggir að einstaklingar undir 18 ára sem eiga í samþykku kynferðissambandi á jafnræðisgrundvelli verði ekki sóttir til saka. Skoða má í meðförum þingsins hvort styrkja þurfi þessa málsgrein og skýra hana betur við hækkun kynferðislegs lögaldurs.

Hækkun kynferðislegs lögaldurs hefur það í för með sér að þau tilvik sem um ræðir í 201. og 202. gr. myndu falla þar undir. Með frumvarpi þessu er markmiðið ekki að draga úr alvarleika þeirra brota og er því lagt til að þau tilvik verði virt til refsiþyngingar, því þyngri eftir því sem samband geranda og brotaþola er nánara. Ákvæði 204. gr. skilur eftir opnar dyr sem getur reynst erfitt að girða fyrir þegar kemur að þungri sönnunarbyrði þessara mála. Í ljósi viðkvæmrar stöðu barna er því talin ástæða til þess að fella brott ákvæði 204. gr., þar sem barnið ætti ávallt að njóta vafans og ábyrgðin sett á herðar þess fullorðna.

Þetta ákvæði var m.a. nýtt í nýföllnum dómi til að sýkna einstakling af því að stunda kynlíf með 14 ára stúlku. Í dómnum sagði, með leyfi forseta:

„Verður fallist á að ákærði hafi hvorki mátt ráða af samskiptum við brotaþola að hún væri undir 15 ára aldri né heldur að reynsluleysi hennar hefði átt að gefa honum það til kynna. Þvert á móti var reynsla sem brotaþoli hefur sjálf greint frá og samskiptamáti hennar um kynferðisleg málefni til þess fallin að staðfesta í huga ákærða orð hennar um að hún væri orðin 15 ára.“

Þessi dómur og aðrir svipaðir sýna okkur svart á hvítu að nauðsynlegt er að endurskoða þennan kafla hegningarlaganna og tryggja það að eldri einstaklingar geti ekki nýtt sér takmarkaðan þroska og aldur barna til þess að stunda kynlíf með þeim. Mikilvægt er að hafa í huga þegar um er að ræða kynferðismök milli barns á aldrinum 15–17 ára og aðila sem er fullorðinn og jafnvel miklu eldri, að þessi mál fara ekki til dómstóla í dag nema það sé eitthvert annað brot. Ákæruvaldið mun aldrei sækja mál sem það veit að heyrir ekki undir nein ákvæði. Þess vegna eru það nánast bara þau mál þar sem hefur verið meira ofbeldi og misnotkun í gangi sem rata til dómstóla. Því er engin traust tölfræði sem liggur fyrir því hversu algengt þetta er en í samtölum mínum við þolendur, sér í lagi ungar konur, eru flestir mjög meðvitaðir um að þetta viðgengst víða í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Það er von okkar flutningsmanna þessa frumvarps að með því að einfalda kynferðisbrotakaflann með þessum hætti verði hægt að girða fyrir þær glufur sem núgildandi löggjöf býður upp á fyrir gerendur, með hagsmuni og vernd barna að leiðarljósi.