Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar. Ég hjó eftir því í hans ræðu að hann orðaði það á þann hátt að þetta myndi hitta minni flokka harðar fyrir heldur en stærri flokka. Þá verður maður að horfa á þessa breytingu sem t.d. er lögð til hér, að 12 milljónirnar fari niður í 7. Þetta skiptir auðvitað verulegu máli fyrir litla flokka ef þessu verður breytt á þennan hátt en það hefur einnig áhrif fyrir flokka, grasrótarsamtök jafnvel, sem hafa í hyggju að bjóða sig fram að það sé verið að hækka úr 2,5% í 4% atkvæða. Ég lít ekki þannig á að flokkar hafi endilega beðið afhroð þó að þeir hafi ekki náð manni á þing, það sé ekki endilega eitthvert stórkostlegt tap. Það getur tekið langan tíma að byggja upp stjórnmálasamtök og stjórnmálasamtök sem ná kannski 3% — það eru ansi margir kjósendur á bak við slíkt framboð. Erum við að sjá með þessu hugsanlega að verið sé að hygla hinum stóru á kostnað hinna smærri? Ég held að þessar 12 milljónir á sínum tíma hafi verið hugsaðar til að flokkarnir gætu þá rekið skrifstofurnar með starfsmanni eða starfsmönnum kannski en með þessu verður ekki eins hægt um vik að halda áfram stjórnmálastarfinu. Ég held að Sósíalistaflokkurinn t.d. sem náði ekki inn á þing hafi haft hag af fyrirkomulaginu eins og það er núna en gæti hugsanlega ekki fengið framlag í framhaldinu. (Forseti hringir.) Það má nefna stjórnmálasamtök eins og Dögun á sínum tíma. Það eru ýmis stjórnmálasamtök sem ekki hafa komist að en náðu samt hylli þúsunda kjósenda.