Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:48]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir síðara andsvar. Við erum þá bara ósammála um að svæfingarmáttur hins opinbera geti ekki haft letjandi áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka. Það er a.m.k. mín tilfinning, komandi þaðan sem ég kem, og ég er svolítið hissa á því að hv. þingmaður hafi ekki sömu tilfinningu eða velti því a.m.k. fyrir sér, komandi þaðan sem hann kemur.

Varðandi það hvernig hið opinbera hefur þessi slævandi áhrif, að því er ég tel, þá hefur hreinlega dregið úr hvata stjórnmálaflokka til þess að eiga í virku samtali við kjósendur og atvinnulífið, sem er auðvitað bara samansafn kjósenda. Eins og hv. þm. Halldór Auðar Svansson benti á hér áðan, þá slagar þetta upp í tvo þriðju eða jafnvel þrjá fjórðu hluta tekna stjórnmálaflokka. Þeir hafa þá hreinlega minni hvata til að leita til sinna kjósenda. Þetta eru svona helstu áhrifin sem ég hef áhyggjur af. Að því sögðu, eins og kemur fram í greinargerð, er sumpart tekið undir það og að einhverju leyti með semingi að það geti verið jákvætt að ríkið styðji við stjórnmálastarfsemi. Af því að hv. þingmaður nefndi hér Þýskaland sérstaklega, þá vakti fyrirkomulagið þar einmitt athygli mína þar sem er lögbundið að fjárframlögum skuli varið í eiginlega stjórnmálastarfsemi, umræðu og fræðimennsku.