Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

grænir hvatar fyrir bændur.

71. mál
[17:07]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er kominn hér upp til að þakka fyrir þessa ágætu þingsályktunartillögu sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir flutti hér um græna hvata fyrir bændur. Þetta er ákaflega merkilegt mál og mikilvægt því að við vorum t.d. í umræðum hér í gær um landbúnaðarkerfið og mál um endurskoðun á þeirri umgjörð sem bændur þessa lands búa við og neytendur ekki síst, reyndar frá sama þingflokki og hv. þingmaður tilheyrir. Ágætt frumvarp um breytingar á þeim lögum þar sem mikil vinna hefur verið lögð í það. En þetta mál snýr sérstaklega að tækifærum sem eru til staðar í íslenskum landbúnaði, klárlega, og mikilvægi þessara tækifæra, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir varðandi hlýnun jarðar og loftslagsvána, sem er auðvitað sá vandi sem er hvað stærstur af alþjóðlegum áskorunum dagsins í dag.

Það eru líka mikil og sterk sjónarmið sem eru að baki því að reyna að draga úr kjötframleiðslu því að kjötframleiðsla er, eins og oft hefur sjálfsagt komið fram í þessum sal, kom alla vega síðast fram í gær, einn af helstu þáttunum sem stuðlar að hlýnun jarðar og gróðurhúsaáhrifunum. Og þó svo að íslensk sauðfjárrækt sé nú vissulega með skárri framleiðslugreinum þegar kemur að þeim vettvangi, þ.e. kjötframleiðslunni, þá eru engu að síður áhrif frá henni líka. Hvert svona viðbótartækifæri sem bændur hafa til að nýta land sitt með þeim hætti að dregið sé úr þessum áhrifum á loftslagið og á landið er til bóta.

Svo er annað sem tæpt er á í þessari ágætu tillögu hér, þ.e. skógrækt, sem er líka aðferð til að binda kolefni og vinna þar af leiðandi gegn hlýnun jarðar. Ég held að á Íslandi séum við með, hvort það er um 2% lands sem er hægt að skilgreina sem skóg og það er svo sannarlega hægt að gera gangskör í því að græða upp land með skógi hér á Íslandi. Við eigum mikið af landi sem er illa farið vegna foktjóns og uppfoks og við höfum verið að missa land á haf út á undanförnum árum. Gróður bindur auðvitað jarðveg og kannski ekki síst skógur, fyrir utan auðvitað þau jákvæðu áhrif sem skógur hefur á veðurfar á hérna þar sem hann er til staðar. Ef það er eitthvað sem þyrfti að gera á þessu landi þá er það nú að bæta veðrið. Það er hægt að grípa til aðgerða sem minnka vind. Við höfum séð það t.d. bara hérna í nágrenni Reykjavíkur, á höfuðborgarsvæðinu, að vindur hefur farið snarminnkandi undanfarna áratugi einfaldlega vegna þeirrar skógræktar sem hefur verið ráðist í, Græna treflinum svokallaða uppi í Heiðmörk og í kringum höfuðborgarsvæðið og hefur grettistaki verið lyft þar og mikið verið unnið. Við erum að sjá það að sá skógur er farinn að sá sér sjálfur þannig að það hefur verið för til heilla.

Ég held að þessi þingsályktunartillaga, þar sem lagt er til að það verði skipaður þarna starfshópur með fulltrúum ýmissa aðila og hagaðila sem koma að þessu, ég held að hann sé skynsamlega samsettur. Ég vil ljúka þessu með því að þakka flutningsmönnum þessarar tillögu, sem eru nú úr Viðreisn og Samfylkingu, a.m.k., fyrir þeirra góðu tillögu.