131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:17]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Íslenskir neytendur hafa valið að nota GSM-síma í staðinn fyrir fastan síma sem bundinn er við kopar heima hjá sér. Þeir hafa valið það þrátt fyrir hærri kostnað. Þeir vilja frekar fá þjónustu, hún er þeim meira virði. Það er bara einfalt mál. Það er miklu ódýrara að nota heimilissímann í dag og auðvitað gætu allir Íslendingar notað hann og eingöngu hann og ekkert meira. En þeir vilja borga meira fyrir meiri þjónustu. Þeir vilja fá betri þjónustu.

Það er kannski sá munur á mér og hv. þingmanni að ég trúi á samkeppni, ég trúi á einstaklinginn og ég trúi á frjálsan markað en hv. þingmaður trúir á eitthvað allt annað.