131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:36]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni, ég var kosinn í efnahags- og viðskiptanefnd sem formaður. En ég er ekki að tala hér sem slíkur, ég er að tala sem einfaldur þingmaður og ræða um einkavæðingu bankanna og einkavæðingu Landssímans.

Þegar menn kaupa fyrirtæki veit hv. þingmaður að menn kaupa hagnað framtíðarinnar. Fyrirtæki sem er með góðan og mikinn hagnað er selt hærra verði en annað sem er með lakan hagnað þannig að þegar Landssíminn verður seldur fær ríkissjóður hagnað allrar framtíðar eða trú manna á þann hagnað, og jafnvel oft meira í þeirri trú kaupenda að þeir geti bætt hann með bættum rekstri með því að auka hagnaðinn enn meira. Þannig er hagnaðurinn seldur.

En í sambandi við að ég hafi ekki fært rök fyrir máli mínu þá ég vil nú bara nefna það, herra forseti, að laun hafa hækkað hér á landi sem hvergi annars staðar í heiminum síðan Sjálfstæðisflokkurinn kom inn í ríkisstjórn. Og vegna þess frelsis sem menn hafa innleitt á markaði, vegna þess frelsis í fjármagnsflutningum og frelsis fyrirtækja, lækkun skatta o.s.frv. hefur hagur almennings stórbatnað. Hagur ríkissjóðs hefur verið með miklum ágætum, yfirleitt afgangur, mikill afgangur. Áður fyrr var þetta dúndurtap á hverju einasta ári.

Ég tel mig því aldeilis geta fært rök fyrir því að frelsi einstaklingsins og samkeppnin sé bara ágætismál. Ég vil ekki hugsa til þess hvernig þetta var einu sinni í sambandi við gjaldeyriskaup og gjaldeyrishöft og allt það. Þetta mikla tækifæri, þessi mikla veltuaukning vegna frelsisins og samkeppninnar hefur leitt til þess að hægt er að lækka skatta umtalsvert án þess að ríkissjóður beri tjón af.