133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

reiknilíkan heilbrigðisstofnana.

163. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það á ekki að afgreiða fjárlög þannig að þeir sem gala hæst fái mest. En það hefur stundum viljað brenna við að einstaka fjárveiting hafi farið með þeim hætti frá Alþingi. Ég fagna því að þetta reiknilíkan kemur á leiðréttum rekstrargrunni þessara stofnana sem hafa í mörg ár barist í bökkum bara við það að reyna að sinna þeirri þjónustu sem þau eiga að gera lögum samkvæmt.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það væru einhver dæmi þess að stofnanir hefðu fengið of mikið. Ég beini þeirri spurningu þá til hæstv. ráðherra hvernig það var leiðrétt og hvernig rekstur þeirra stofnana hafi komið út á undanförnum árum. Ef reiknilíkanið sýnir að viðkomandi stofnun hafi fengið í einhver ár of háar fjárhæðir miðað við þá þjónustu sem hún á að veita hafa þær þá safnast saman? Eiga einhverjar af þessum stofnunum þá uppsafnað fjármagn sem þær geta fært á milli ára?

Mér er vel kunnugt um að reiknilíkanið skilaði inn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands verulegum úrbótum sem fengust bæði á fjáraukalögum og eins núna í fjárlögum. En mig fýsir að vita: Eru komur þeirra einstaklinga sem eru í frístundabyggð eða sumarbústaðabyggð og sækja sér þjónustu til heilbrigðisstofnana skráðar? Hefur verið haldið utan um það þannig að það sé um raunhæfa úrlausn að ræða eða eru þetta ágiskanir? Er þetta mat ráðuneytis á því hversu margir eru hugsanlega í sumarbústaðabyggð á svæði heilbrigðisstofnana eða hefur á undanförnum árum og í aðdraganda þess að svona reiknilíkan er gert — því að það hlýtur að þurfa að vanda til verka — hefur þá verið haldin sérstök skrá yfir þjónustu við þessa einstaklinga?