139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur komið fram, eins og oft áður, að sjálfstæðismenn tala stjórnlagaþingið massíft niður. Þeir segjast vilja breyta stjórnarskránni og setja m.a. í hana að auðlindirnar eigi að vera í eigu þjóðarinnar.

Þá er eðlilegt að rifja upp forsöguna í þessu máli. Þegar Framsóknarflokkurinn fór á sínum tíma í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum var þetta eitt af atriðunum í stjórnarsáttmála. Sjálfstæðismenn sögðust ætla í samvinnu við okkur framsóknarmenn um að setja auðlindirnar í eigu þjóðarinnar í stjórnarskrá. Varð það niðurstaðan? Nei, það varð ekki niðurstaðan, (Gripið fram í.) því miður, og mitt mat er að við höfum verið dregin í þessu starfi — ég vil ekki segja á hvaða eyrum en við vorum dregin allt of lengi (Gripið fram í.) í þessu samstarfi. Niðurstaðan varð ekki góð að mínu mati, okkur tókst ekki í tíma að gera þær breytingar sem þurfti að gera og ég vil skrifa það mest á reikning sjálfstæðismanna.

Núna segjast sjálfstæðismenn aftur vilja breyta stjórnarskránni og setja auðlindirnar í eigu þjóðarinnar. Sporin hræða í þessu, virðulegur forseti. Þess vegna vildu framsóknarmenn stjórnlagaþing. Þeir vildu taka þetta vald af þinginu og setja það í hendurnar á stjórnlagaþingi og þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, bindandi stjórnlagaþing. Það vildu sjálfstæðismenn ekki. Að lokum varð samkomulag um ráðgefandi stjórnlagaþing af því að sjálfstæðismenn beittu hér málþófi í aðdraganda kosninga. Við hin gátum ekki annað en gefist upp, því miður, (Gripið fram í.) þannig að samkomulag varð um ráðgefandi þing.

Nú er búið að dæma það ógilt þannig að það er gríðarlega mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki af skarið og velji leið, hver sem verður valin, annaðhvort að skipa þessa 25 manna nefnd til að hjálpa okkur eða kjósa upp á nýtt. Til þessa þurfum við að taka afstöðu. Við verðum að velja leið út úr ógöngunum þannig að hingað inn komi góð tillaga frá (Forseti hringir.) einhvers konar þjóðkjörinni samkomu sem við getum tekið til okkar. Við eigum ekki að taka þetta mál inn í þingið aftur (Forseti hringir.) á hefðbundinn hátt. Það skilar ekki árangri, það sýnir sagan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)