141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands.

[13:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Greinarhöfundur vitnar í þennan starfshóp og segir, með leyfi forseta:

„Starfshópur þessi skilaði síðasta haust og lagði meðal annars til að veittar yrðu ákveðnar undanþágur til þeirra sem ekki geta gengið, svo þeir geti notið náttúrunnar t.d. með því að nota fjór-/sexhjól til að ferðast um óbyggð og vegalaus svæði, auk annarra tillagna til að uppfylla samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Vart þarf að taka það fram að jafnframt var í umræddum tillögum minnst á ábyrgð þess sem fer um óbyggðir á vélknúnum ökutækjum og þá staðreynd að skemmi menn landið varði það m.a. fésektum. Slíkar tillögur lúta að eðli málsins og undir þær tek ég heils hugar.“

Þetta skrifar Bergur Þorri Benjamínsson. Ég held að það geti náðst breið samstaða um að koma þessum tillögum í framkvæmd, en þetta er annar þáttur málsins. Hinn þáttur málsins er um almannaréttinn. Ef menn ætla almennt að koma í veg fyrir það að (Forseti hringir.) fólk sem hefur getað ferðast fram til þessa með vélknúnum ökutækjum geti það áfram, og það á jafnt við hreyfihamlaða sem og aðra, er ég ekki viss um að við náum saman í því enda væri þá augljóslega verið að brjóta sérstaklega á hreyfihömluðum.