143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, setti ofan í við spyril Ríkisútvarpsins á dögunum í frægu sjónvarpsviðtali þegar spyrillinn sagði: Sumir segja að svona sé þetta. Þá sagði hæstv. formaður Framsóknarflokksins: Svona talar maður ekki á almannaþjónustumiðlinum. Finnst hæstv. utanríkisráðherra það í lagi að svona tali menn á Alþingi?

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er nú hálfforviða yfir því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki komið hér upp og gert okkur grein fyrir fyrirætlunum sínum í ljósi orða hæstv. forseta hér áðan, hvort hann hafi sömu afstöðu og hans ágæti formaður sem lýsti þessari skoðun sinni í sjónvarpi allra landsmanna, að menn ættu ekki að tala í dylgjustíl.

Hvað segir hæstv. utanríkisráðherra um það? Er hann sammála formanni sínum um það? Ætlar hann að endurskoða greinargerðina sem hann hefur hér lagt fram sem stjórnartillögu?