144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þessa sérstöku umræðu og öllum öðrum þátttakendum fyrir innleggið. Eins og hér hefur komið fram eru það íbúar Reykjanesbæjar sem líða fyrir það að bærinn hafi nánast verið keyrður í þrot. Þeir þurfa að greiða hærri gjöld vegna óskynsamlegra ákvarðana stjórnmálamanna og bærinn þarf að draga saman í þjónustu við íbúa. Það er auðvitað kaldranalegt að álykta að ábyrgðin sé íbúanna vegna þess að þeir hafi kosið yfir sig slag í slag stjórnmálamenn sem áttuðu sig ekki á afleiðingum gjörða sinna eða fjárfestu í draumum sem ekki rættust. Fólk treystir á eftirlit eftirlitsnefndar sveitarfélaga og að þegar hún setur upp sín rauðu flögg verði gripið til viðeigandi aðgerða áður en allt fer í bál og brand. En það virðist hafa brugðist hvað Reykjanesbæ varðar, athugasemdir eftirlitsnefndarinnar virðast ekki hafa náð alla leið til íbúanna.

Ég minni á þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að og var lögð fram 13. nóvember sl. þar sem hæstv. ríkisstjórn er falið að skipa starfshóp fimm sérfræðinga úr jafn mörgum ráðuneytum til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum. Ekki er ljóst hvenær tillagan kemst á dagskrá, en hæstv. ráðherra benti réttilega á að málefni sem taka þarf á í Reykjanesbæ heyra undir fleiri ráðuneyti. Því spyr ég hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála hvort hún muni taka þingsályktunartillögu mína upp á sína arma og leggja efni hennar til í ríkisstjórn.