144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana.

238. mál
[19:53]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana. Auk mín eru á tillögunni hv. þingmenn Kristján L. Möller, Guðbjartur Hannesson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Björt Ólafsdóttir.

Í þingsályktunartillögunni felst að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2015. Við endurskoðunina verði gætt að eftirtöldum atriðum:

1. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,

2. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir,

3. ef uppsetning á fósturvísum fer ekki fram þar sem engin frjóvgun hefur orðið, þá sé full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna þeirrar meðferðar, en þó ekki talin með öðrum tæknifrjóvgunarmeðferðum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær til,

4. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til ferðakostnaðar vegna tæknifrjóvgunarmeðferða jafnvel þótt greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái ekki til þeirra meðferða,

5. að kynfrumur (eggfrumur og sáðfrumur) frá tilteknum gjafa fari aðeins til eins pars eða einstaklings.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta en ætla að grípa niður í greinargerðinni á nokkrum stöðum. Til upplýsingar þá má ætla að eitt af hverjum sex pörum eigi við ófrjósemi að stríða af einhverju tagi, en tíðni ófrjósemi er því miður alltaf að vaxa af ýmsum ástæðum.

Með þingsályktunartillögu er lagt til að fela ráðherra að endurskoða greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða þannig að stuðningur ríkisins verði meiri en nú er og geri fólki sem glímir við ófrjósemi auðveldara að sækja meðferðir vegna sjúkdómsins en nú er, vegna þess að ófrjósemi er skilgreind sem sjúkdómur.

Greiðsluþátttaka ríkisins vegna glasafrjóvgunarmeðferða fer nú eftir ákvæðum reglugerðar nr. 917/2011, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar tekur hún til glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar, þ.e. ekki tæknifrjóvgunar. Gildistími reglugerðarinnar er tímabundinn, samanber 8. gr. hennar, og hefur gildistími hennar verið framlengdur um eitt ár í senn á hverju ári síðan hún var sett. Af því má vera ljóst að núverandi fyrirkomulag er ekki ætlað til framtíðar að mati flutningsmanna þessarar tillögu og því er full ástæða til að ráðherra endurskoði núverandi fyrirkomulag um greiðsluþátttöku.

Fyrrnefndri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 1167/2011 þannig að nú nær greiðsluþátttaka sjúkratrygginga aðeins til annarrar til fjórðu meðferðar, hvort sem um er að ræða par sem ekki á barn saman fyrir eða einhleypa konu sem ekki á barn. Áður náði þátttakan til fyrstu meðferðar. Eftir breytinguna taka sjúkratryggingar ekki þátt í kostnaði vegna glasafrjóvgunarmeðferðar hjá pörum sem fyrir eiga barn saman.

Ég vil einnig benda á að frjósemisaðgerðir á Íslandi eru einungis framkvæmdar á einni læknastöð, ART Medica í Kópavogi. Gjaldskrá sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgana er ekki í samræmi við þann kostnað sem fylgir meðferðunum. Þetta þarf að samræma og ég dæmi í greinargerðinni út frá annars vegar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og kostnaði við meðferð. Mismunurinn getur verið 50 þús. kr. sem greiðist þá einungis af sjúklingi.

Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að auka stuðning vegna tæknifrjóvgunarmeðferða á Íslandi því að við erum eftirbátar nágrannalandanna á þessu sviði. Ég tek dæmi um Danmörku og Svíþjóð en þar nær greiðsluþátttaka til fyrstu, annarrar og þriðju meðferðar. Í Þýskalandi er ekki gerður greinarmunur á meðferðum og allar meðferðir niðurgreiddar af ríkinu hafi pör náð 25 ára aldri. Á Englandi er full greiðsluþátttaka í einni til þremur glasa- og smásjárfrjóvgunarmeðferðum og í Noregi eru þrjár meðferðir greiddar að fullu. Finnland er á svipuðum stað, þannig að við erum nokkrir eftirbátar á þessu sviði.

Mig langar einnig til að nefna mismunun gagnvart landsbyggðarfólki, en eins og ég sagði áðan þá er einungis ein læknastofa … (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á að nú er nær liðinn sá tími sem við höfum til ráðstöfunar á þessum þingfundi.)

Hæstv. forseti. Má ég ljúka máli mínu?

(Forseti (EKG): Við höfum einungis eina mínútu til þess.)

Ég lýk þá máli mínu og vísa þingsályktunartillögunni til velferðarnefndar.