145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Forgangslisti þessarar ríkisstjórnar er oft mjög furðulegur eins og sést á því að í gær lauk 1. umr. um brennivín í búðir sem er komið til nefndar núna. Málið var rætt í 20 klukkustundir eða svo enda þverpólitískur ágreiningur um þetta mál nema í þingflokki Vinstri grænna, þar stöndum við öll heils hugar gegn því að áfengi fari í almennar matvöruverslanir. Í því samhengi vil ég segja að undirskriftasöfnun til stuðnings heilbrigðiskerfinu er í gangi og yfir 50 þús. manns hafa skrifað þar undir. Á meðan böðlast menn áfram með prinsippmálið sitt, áfengi í matvörubúðir, allt fyrir frelsið, að hægt sé að kaupa brennivínið á öllum tímum sólarhrings og skella skollaeyrum við aðvörunum úr heilbrigðisstéttum og forvarnafélögum um að þetta muni auka neysluna. Menn þykjast ekki sjá allar afleiðingarnar sem fylgja aukinni neyslu, fjölskylduharmleiki og aukinn kostnað fyrir heilbrigðiskerfið í framhaldinu.

Skoðanakannanir hafa sýnt að það er andstaða við það að brennivín fari í búðir. Áfram skal samt haldið að berja á þessu máli. Stjórnvöld valda ekki því verkefni að ráða við heilbrigðiskerfið eins og það er. Það eru langir biðlistar og mikil þörf á meira fjármagni í endurnýjun Landspítalans, til tækjakaupa og annars. Ætla menn virkilega að kalla yfir sig enn aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu með því að auka aðgengi að áfengi og fá brennivín í búðir? Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig menn geta hagað sér í þessum málum. (Forseti hringir.) Þjóðin kallar ekki eftir þessu, hún kallar eftir réttlátara samfélagi og jöfnuði í þessu samfélagi — en ekki brennivíni í búðir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna