145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka til umræðu mál sem er ekki oft rætt á Alþingi, þ.e. rannsóknir og mælingar á stærð loðnustofnsins.

Eins og kunnugt er hefur Hafrannsóknastofnun verið að leita og mæla frá áramótum og komst að þeirri niðurstöðu eftir mikla leit með nokkrum veiðiskipum að veiðistofninn væri 675 þús. tonn.

En nú bregður svo við að stjórnvöld ákváðu í fyrra nýja aflareglu um ákvörðun loðnustofnsins og hvað má veiða sem gerir það að verkum að úr þessum stofni verður veitt miklu minna en áður. Ég fyrir mitt leyti gagnrýni það mjög hvernig að málinu var staðið. Það fór engin kynning fram til dæmis fyrir atvinnuveganefnd og við vitum ekki nákvæmlega hvað þarna var verið að gera og engin reiknilíkön sett upp heldur.

Þetta gerir það að verkum núna að ásamt því sem Norðmenn mega veiða, Færeyingar, Evrópusambandið, sem Norðmenn eru búnir að ná til sín, þeim afla, koma einungis 100 þús. tonn í hlut okkar Íslendinga á þessari vertíð.

Þetta eru mjög alvarleg tíðindi. Ég vil segja það strax að við viljum að sjálfsögðu að stofninn sé sjálfbær, við ætlum ekki að ganga á höfuðstólinn. Það er ekki. En ég er mjög hugsi yfir þessari nýju aflareglu, hvernig hún er sett fram, eins og ég sagði áðan, og tel að við hefðum átt að undirbúa það betur og fara betur í gegnum það.

Þetta hefur gríðarleg áhrif fyrir þjóðarbúið vegna þess að af 100 þús. tonnum af afla er aflaverðmæti um 11,6 milljarðar, þar af fær ríkissjóður í formi skatta tæpa 3 milljarða, laun eru í kringum milljarður og svona má lengi telja. Vegna þessa, sem ég hef gert að umtalsefni á stuttum tíma, hef óskað eftir því að þetta mál verði tekið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og eftir því sem ég best veit hefur formaður nefndarinnar (Forseti hringir.) sett það á dagskrá á morgun. Ég fagna því mjög þar sem þá koma loksins fulltrúar frá ráðuneyti og Hafrannsóknastofnun til að útskýra hina nýju veiðireglu og það sem er á ferðinni.


Efnisorð er vísa í ræðuna