146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í þessu máli er lagt til að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna neytenda ef þeir hafa nægjanlegar tekjur til að standa undir verulegum sveiflum í greiðslubyrði lánanna. Í nefndaráliti minni hlutans er bent á að annars vegar felist í frumvarpinu veruleg mismunun gagnvart hópum lántakenda eftir því hversu miklar tekjur þeir hafa, þar sem þessi lán verða fyrst og fremst í boði fyrir þá sem hafa nægar tekjur til að standa undir þeim, og hins vegar er gagnrýnt hvaða áhrif þessar lánveitingar geta haft á fjármálastöðugleika. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum leggjast gegn þessu máli en sitja hjá við breytingartillögur og við fulltrúar minni hlutans óskum eftir að málið verði tekið aftur inn til hv. efnahags- og viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. til að fara yfir hvort hugsanlega sé hægt að gera einhverjar breytingar á málinu til bóta.