148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

vegur um Gufudalssveit.

[11:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu í þinginu. Það er mikilvægt að halda þessu gangandi, halda pressu á málinu. Ég er sammála hv. þingmanni um að ef ekki verður ráðin bót á samgöngum um þetta svæði heftir það — það hefur verið þannig — eðlilegan framgang atvinnulífs og hindrar að íbúar geti sótt sér þjónustu og komist á milli staða. Það svar sem ég gaf hér er samkvæmt bestu vitneskju um þá tímafresti sem um er að ræða, þannig að þetta gæti gerst eins og ég lýsti. Ég vona svo sannarlega að það geti orðið þannig að þessir eðlilegu tímafrestir, það verklag sem er í gangi núna, fari í gegnum stjórnkerfið á eðlilegan hátt og að þetta geti gengið og við getum þá farið af stað í þetta nauðsynlega verkefni fyrr en síðar. Við sjáum þá fyrir okkur verklok innan þriggja ára frá því að það hefst.