148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[22:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en mér fannst ástæða til að koma inn á að það eru atriði í 5. gr. frumvarpsins sem ég hefði viljað sjá allsherjar- og menntamálanefnd taka fyrir aðeins öðruvísi vegna þess að það eru, eins og ég kom inn á í andsvörum áðan við — ég man ekki við hvern ég var að tala en það er kannski ekki aðalatriðið. Það er svo langt um liðið. — Já. [Þingmaður hlær.] Kjarni málsins er að það eru ákveðin gjöld sem heimild er til að rukka samkvæmt frumvarpinu sem eru ekki réttlætanleg, að ég tel, út frá því hversu mikill kostnaður fylgir því raunverulega að veita þjónustuna, þ.e. margar af þessum uppflettingum — talað er um það í f-lið, uppflettingar, sérstaklega rafrænar, en sömuleiðis er talað um aðgang að upplýsingum úr fasteignaskrá og þjóðskrá og tengdum skrám í hvoru tilfelli fyrir sig, að þar megi rukka, en þessar skrár eru fyrst og fremst rafrænar í dag. Það er enginn jaðarkostnaður sem fellur til af því að veita upplýsingar úr skránni, nema í þeim tilfellum þar sem er einhver starfsmaður sem þarf bókstaflega að gera þetta fyrir einhvern sem mætir á staðinn eða hringir inn. Rafrænar uppflettingar ættu í öllu falli að vera ókeypis. Það er ekki hægt að tala um að kostnaðurinn við að búa til skrána sé það sem réttlætir þetta vegna þess að sá kostnaður verður hvort eð er alltaf til. Það er ekki eins og hægt sé að sleppa því að búa til þessar skrár.

Það er sérstaklega áhugavert að skoða þetta í samhengi við umræðuna sem var hér í fyrra um opnun fyrirtækjaskrár. Þar var nákvæmlega sama hugmyndin á ferðinni hjá okkur sem lögðum það mál fram, að þar sem enginn raunverulegur kostnaður er af því að veita þessi gögn á auðvitað ekki að vera neinn kostnaður fyrir þá sem fá þau. Það er miklu eðlilegra að við fjármögnum starfsemi þjóðskrár eða ríkisskattstjóra í því tilfelli með skattfé á eðlilegan hátt en að vera að búa til svona ákvæði sem snúa sérstaklega að því að reyna að réttlæta einhverjar sértekjur.

Þetta er hið eina sem ég hef tekið eftir í frumvarpinu sem mér fannst þess virði að gagnrýna sérstaklega. Kannski er þetta tilefni til að fara í nákvæmari greiningarvinnu inn í framtíðina um hvaðan sértekjur koma og hvort þær séu yfir höfuð réttlætanlegar í þeim tilfellum sérstaklega þar sem rafræn skráning og rafrænir gagnagrunnar og hvaðeina eru það sem er verið að rukka fyrir aðgang að.