150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að málið fari aftur til nefndarinnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að farið verði ítarlega yfir þetta. Það er alvarlegur hlutur þegar umsagnir berast frá svo stórum samtökum eins og Samtökum eigenda sjávarjarða og Landssamtökum landeigenda á Íslandi í þá veru að frumvarpið sé ekki í samræmi við stjórnarskrá. Það er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur og er nauðsynlegt að fara vandlega yfir það. Umsagnir þessara aðila eru ítarlegar og vel rökstuddar, m.a. er, eins og ég sagði áðan, vitnað í dóm Hæstaréttar frá 1996 og álitsgerð fræðimanns í þeim efnum. Það eru alvarlegir annmarkar á þessu að mínu mati, herra forseti, sem er mikilvægt að fara nákvæmlega í saumana á svo að menn séu ekki að leggja í einhverja vegferð sem síðan getur valdið ríkissjóði bótaskyldu o.s.frv. og þeim einstaklingum sem eiga hlut að máli verulegu tjóni.