150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

330. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Upphaflega ætlaði ég að leggja fram skriflegt nefndarálit en það æxlaðist þannig að það verður munnlegt enda kannski ekki endilega efniviður í heilt nefndarálit þótt mikið megi ræða um þá smávægilegu breytingu sem ég vil fjalla um. Sömuleiðis hafði ég hug á að leggja fram breytingartillögu sem endurspeglaði þá breytingu en uppgötvaði síðan að sú breytingartillaga myndi fela í sér aðra atkvæðagreiðslu um b-liðina svokölluðu, sem ég mun skilgreina betur síðar. Ég féll frá því þegar ég áttaði mig á að það er alveg eins hægt að greiða atkvæði sérstaklega um þá liði í atkvæðagreiðslu við lok 2. umr. Því eru engin skrifleg skjöl með málflutningi mínum, ég læt duga að fjalla aðeins um fyrirvara mína við frumvarpið, sem er þó að öðru leyti, eftir því sem ég fæ best séð, hið ágætasta. Við sjáum til hvernig fer með atkvæðagreiðslur að loknum umræðum.

Ég verð þó að nefna þessa b-liði frumvarpsins. Það hljómar kannski ægilega flókið en b-liðirnir sem ég er að tala um varða lögbann þar sem fjarskiptafyrirtæki eru milliliðir. Þetta eru b-liðir eftirtalinna liða og greina: 8. gr., d-liðar 10. gr., d-liðar 13. gr., c-liðar 15. gr., d-liðar 17. gr., d-liðar 18. gr., 23. gr. og b-liðar 25. gr.

Þetta hljómar kannski ægilega mikið en þetta er sami liðurinn, þetta eru sömu orðin sem eru endurtekin aftur og aftur. Frumvarpið er þannig upp sett að það varðar breytingar á ýmsum lögum, eins og nafnið gefur til kynna, og þarna er sama breytingin sett inn. Hún fjallar um það að hinar ýmsu stofnanir, t.d. Lyfjastofnun, geti brugðist við einhverri skaðlegri hegðun gagnvart heildarhagsmunum neytenda með einum af fjórum möguleikum a, b, c og d. Það er b-liðurinn af þessum fjórum liðum sem ég geri athugasemdir við. A-liðurinn er sá að stofnunin getur lagt fram kröfu um lögbann þannig að þjónustuveitandi eða sá sem starfrækir netskilflöt þurfi að fjarlægja efni af þeim netskilfleti eða setja upp skýra viðvörun sem neytendur sjá þegar þeir fara inn á netskilflötinn. Þetta er a-liðurinn, það er svo sem ekkert við hann að athuga. Þetta þýðir á mannamáli að hægt er að fá lögbann, einhver aðili sem hýsir t.d. vefsíðu þurfi að fjarlægja efni af þeim netskilfleti. Það er ekki endilega það skemmtilegasta sem maður gerir í netmálum að taka efni af internetinu, oft ekki, en stundum getur verið þörf á því. Ég fæ ekki séð að það skemmi hugmyndina á bak við internetið eða tæknilega útfærslu sem er heppileg á því. Þetta er a-liðurinn, allt í góðu með hann.

Síðan ætla ég í c-lið, hoppa yfir b-liðinn í bili, ég útskýri hann síðast. C-liðurinn felur í sér að með lögbanni sé hægt að leggja fyrir þjónustuveitanda að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti. Allt í góðu, það er svo sem í lagi líka.

D-liðurinn felur í sér að skráningaraðila eða skráningarmiðlun léna sé gert að loka, læsa eða endurskrá lén á tilheyrandi stofnun, t.d. Lyfjastofnun. Aftur er lítið við það að athuga í sjálfu sér. Allt eru þetta neyðarúrræði og það kemur mjög skýrt fram með frumvarpinu og ekkert af þessu er eitthvað sem á að gera reglulega. Þetta á að gera undir mjög sérstökum kringumstæðum þegar búið að reyna önnur úrræði. Það er ein ástæðan fyrir því að þetta er réttlætanlegt að mínu mati.

B-liðurinn felur hins vegar í sér að láta fjarskiptafyrirtæki takmarka aðgang að netskilfleti. Það er grundvallarmunur.

Virðulegi forseti. Það er sami grundvallarmunur á því og ætla að gera húseiganda að sinna einhverri skyldu ríkisvaldsins undir einhverjum ákveðnum kringumstæðum annars vegar og hins vegar að láta Vegagerðina ætla að passa það að húseigandi einhvers staðar sinni þeirri skyldu. Fjarskiptafyrirtæki eins og Síminn eða Hringdu eða einhver önnur geta fengið skipun, samkvæmt lögbanni, og þurfa þá að fara að loka á aðgang að þriðja aðila sem milliliður. Það er að mínu mati óráðlegt. Það er í grundvallaratriðum óráðlegt og er röng aðferð og ég aðhyllist hana ekki. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn þessum b-liðum, sem ég taldi upp áðan, þegar kemur til atkvæðagreiðslu við 2. umr. Sjáum til með önnur ákvæði.

Í frumvarpinu er sem betur fer ekki lagt til að þetta sé gert mjög reglulega heldur gerist þetta einungis undir mjög sérstökum kringumstæðum þegar búið er að reyna aðra hluti. Það er ekki alltaf þannig þegar fólk fær hugmynd um að setja lögbann á hitt eða þetta, ýmist fréttamiðla eða svokallaðar skráardeilisíður sem heimila notendum að deila höfundaréttarvörðu efni í óleyfi höfunda. En aftur á móti er þarna á ferðinni ákveðið grundvallaratriði sem felur í sér að internetið á að virka þannig að við séum öll tengd við alla, að mínu mati. Það er mjög óæskileg þróun ef þjóðríki eða svæði fara einhvern veginn að aðskilja sig sérstaklega. Sumt af því gerir bransinn sjálfur. Sem dæmi hleypti Netflix manni ekki inn á sínum tíma ef maður var frá Íslandi. Það var samt skömminni skárra því að þá var alla vega Netflix sjálft að ákveða það. Mér fannst það leiðinlegt og það eru ein hliðaráhrifin af gamaldags höfundarétti sem setur slíka stöðu upp. En það er þolanlegra út frá tæknihönnunarlegu sjónarmiði. Það að yfirvöld séu að loka sem milliliður býr til þá kröfu í raun og veru á notendur að þeir kunni að fara fram hjá slíkum takmörkunum og sú þekking verður gerð tortryggileg og hefur verið gerð tortryggileg þrátt fyrir að hún sé víðtæk. Það er sú tækni sem t.d. kínversk yfirvöld og sádi-arabísk yfirvöld reyna að koma í veg fyrir að notendur noti.

Mér er mjög illa við öll inngrip sem fela það í sér að slík tækni er gerð tortryggileg vegna þess að þetta er sú tækni sem gerir Sádi-Aröbum og Kínverjum kleift að lesa um lýðræði og einstaklingsfrelsi út fyrir sín landamæri, mjög mikilvægur réttur. Við ættum, ef eitthvað er, að hanna löggjöf okkar þannig að sem flestir kynnu að fara fram hjá þeim takmörkunum sem er lýst í b-liðunum sem ég nefndi. Það er grundvallarástæðan fyrir því að ég er á móti þessum b-liðum, þetta ætti ekki að virka, ég vil ekki að þessi leið virki. Ég vil ekki að þjóðríki geti lokað á hluta internetsins fyrir þjóðríkisborgurum sínum. Ég er á móti því. Ég vil að borgararnir hafi öll þau vopn sem þeir þurfa til að komast fram hjá slíkum takmörkunum. Mér finnst það mikilvægt til þess beinlínis að lýðræðið virki og ég fullyrði að það er grundvallaratriði til að lýðræði komist á í sumum hræðilega stjórnuðum ríkjum eins og Sádi-Arabíu og Kína, svo að tvö augljós dæmi séu nefnd.

Þetta frumvarp og hitt málið, nr. 331, grundvallast á Evróputilskipun, minnir mig. Þetta er reglugerð, afsakið. Í 9. gr. þeirrar Evrópureglugerðar skulu þessar leiðir sem eru taldar upp í liðum a–d vera fyrir hendi og felur frumvarpið í sér þessar heimildir af þeim sökum, vegna 9. gr. reglugerðarinnar. Aftur á móti er þetta öðruvísi fram sett í reglugerðinni. Þar eru liðirnir ekki fjórir heldur þrír og þeir eru ekki einu sinni númeraðir 1, 2 og 3, þeir heita i, ii og iii, þar eru notaðar hinar hábölvuðu rómversku tölur sem mér er persónulega mjög illa við, ef það er ekki ljóst. Þessir þrír liðir fela í sér það sem endurspeglast í frumvarpinu sem a-, c- og d-liðirnir. En svo er lokasetning þar sem segir, með leyfi forseta, „þar með talið að fara fram á að þriðji aðili eða annað opinbert yfirvald framkvæmi slíkar ráðstafanir“.

Nú spurðist ég fyrir um það í nefnd við meðferð allsherjar- og menntamálanefndar á málinu hver lagatúlkun ráðuneytisins væri á þessu. Sú lagatúlkun er að b-liðurinn sem ég nefndi áðan sé nauðsynlegur til að uppfylla þessa reglugerð. Það er mögulegt að það sé rétt. Ég er hins vegar ekki endanlega sannfærður um að það sé rétt. Ég myndi frekar vilja láta reyna á það að sleppa b-liðnum í stað þess að hafa hann inni á grundvelli 9. gr., nánar tiltekið g-liðar 4. mgr. 9. gr., vegna þess að mér finnst orðalagið ekki gefa skýrt til kynna að ætlunin sé sú að milliliður geri þetta, að fjarskiptafyrirtæki geri þetta. Ég sé enga ástæðu fyrir því hvers vegna ekki ætti að tilkynna þetta sérstaklega. Það að þriðji aðili eða annað opinbert yfirvald framkvæmi ráðstafanir, sem er lýst í liðum a, c og d, get ég ímyndað mér að sé eitthvað annað en að fjarskiptafyrirtæki eða annar milliliður framkvæmi þessar aðgerðir. Það fer væntanlega eftir því, myndi ég halda, hvernig fyrirkomulagið er stofnanalega hjá hverju ríki fyrir sig. Eitt þjóðríki gæti verið með lénaskráningu sína setta þannig upp að það sé kannski þriðji þjónustuaðilinn sem sér um það en skráningin eigi sér stað hjá ríkisstofnun eða öfugt. Mér þykir ekki augljóst að við séum tilneydd til að taka upp þennan b-lið samkvæmt reglugerðinni og af þeim ástæðum tel ég æskilegast að fella hann brott.

Ég spurði einnig við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd um utanumhald um svona lögbann sem yrði sett. Það verður að halda því til haga að ekki má búast við því að þau tilvik verði ægilega mörg, ef nokkur, þar sem lögbanns verður krafist á grundvelli b-liðanna sem ég taldi upp áðan þegar fram líða stundir, og vonandi ekki. En þegar sett er lögbann, t.d. á deildu.net eða thepiratebay.se á sínum tíma, þá finnst mér afskaplega mikilvægt að fyrir liggi opinber listi yfir það sem lögbann hefur verið sett á. Gallinn við það er að þá er ríkið í sömu andrá að auglýsa hvað það er sem ríkið er að reyna að hindra notendur í að komist í. Það á svo sem meira við þegar kemur að skráardeilisíðum og þess háttar, þau andrök, vegna þess að hér er væntanlega verið að tala um þjónustu, eins og kannski smálánafyrirtækis eða eitthvað því um líkt, sem notendur leggja ekki mikið á sig til að komast í, þeir myndu ekki endilega reyna að komast í þjónustuna ef þeir gætu ekki flett henni upp á núll einni, ólíkt því sem varðar t.d. höfundaréttarvarið efni þar sem fólk er alveg til í að eyða einni mínútu eða tveimur í að komast fram hjá einhverjum takmörkunum. Ekki að það sé í sjálfu sér það erfitt, það er einfalt mál að komast inn á piratebay, maður fer inn á Google og segir „access piratebay“ og fer inn á fyrstu síðuna, þá er maður kominn inn á piratebay, flóknara er það nú ekki. Merkilegri er þessi tækni ekki sem notuð er í dag, eðlilega ekki, vegna þess að hún getur ekki virkað nema hún gangi of langt eins og ég hef flutt nokkra pistla um.

Ég verð að viðurkenna að vandinn við þessa b-liði er kannski ekki hrikalega alvarlegur í samhengi við önnur sambærileg ákvæði sem hafa verið lögfest eða lögð til. Aftur á móti finnst mér mikilvægt, eins og ég rakti áðan, að yfir allt lögbann sé til skýr og miðlægur listi einhvers staðar opinberlega, listi yfir allt sem er búið að takmarka aðgang að, hvers vegna og hvenær bannið renni út. Við þessu fengust ekki skýr svör, fannst mér, í allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. hvenær slíkt lögbann rynni út. Hvenær myndi því linna? Segjum sem svo að einhver setji upp smálánafyrirtæki, geri það í Kasakstan eða á einhverju svæði þar sem við eigum mjög erfitt með að hafa áhrif á gang mála. Það er sett lögbann og Símanum, Hringdu, Vodafone og öllum þessum fjarskiptafyrirtækjum er sagt: Þið skuluð banna fólki að fara inn á þessa síðu. Þau verða við því. Svo hættir smálánafyrirtækið, það líður undir lok og það kemur eitthvert annað fyrirtæki, dúkkulísufyrirtæki eða einhver sem selur brauð og kökur eða hvaðeina. Notuð er sama IP-talan svokallaða, sama vistfang. Er þá lögbannið fallið úr gildi? Ég fæ ekki séð að það falli sjálfkrafa úr gildi. Ég get alveg séð að hægt væri að fara í gegnum einhvern prósess og fella lögbannið úr gildi vegna þess að skilyrðin fyrir því væru ekki lengur til staðar. Þau svör fengum við í allsherjar- og menntamálanefnd. En ég sé ekki fyrir mér að þannig muni þetta virka í reynd.

Ef þessu ákvæði b-liðar væri beitt að einhverju ráði þá værum við alltaf að tapa smáhluta af internetinu. Agnarsmáum að vísu en samt einhverjum. Það finnst mér í grundvallaratriðum ekki gott.

Þegar við setjum lögbann eða einhverjar takmarkanir með því að láta milliliði framkvæma það þarf í það minnsta, jafnvel þó að við sættumst á að það væri réttmætt undir einhverjum kringumstæðum, að vera gott utanumhald um það hversu lengi slíkar takmarkanir eigi að lifa og undir hvaða kringumstæðum nákvæmlega þær falli sjálfkrafa úr gildi. Ef þær falla ekki sjálfkrafa úr gildi hef ég enga trú á því að einhver muni bara fatta að það eigi að afnema lögbann á einhverja síðu sem viðkomandi veit ekki að er til — vegna þess að það er lögbann.

Það eru því bæði lagatæknilegar og internettæknilegar ástæður fyrir því að ég er á móti þessum b-liðum.

Það er afskaplega freistandi að fara út í sambærileg ákvæði sem eru mun alvarlegri og hafa miklu skaðlegri áhrif á gangverk internetsins, en ég ætla að sleppa því í þetta sinn, þó ekki væri nema vegna þess að ég efast um að einhver fari í gegnum alla þessa ræðu bara til að hlýða á þann annars mikilvæga boðskap. Ég kem honum að síðar. En að því sögðu þá leggst ég gegn téðum b-liðum og mun sjá til með stuðning minn við önnur ákvæði málsins í heild við lokaafgreiðslu.