150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[18:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1023, 608. máli. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, um sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangur þess er að tryggja að Matvælastofnun geti sinnt sínu lögbundna hlutverki við að koma í veg fyrir að alvarlegir dýrasjúkdómar berist til landsins, hefta útbreiðslu þeirra og afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu dýrasjúkdóma. Þannig eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á fyrirkomulagi einangrunar dýra, aðgengi Matvælastofnunar að innfluttum dýrum sem eru í einangrun sem og breytingar til að tryggja að starfsmenn stofnunarinnar geti leitað liðsinnis lögreglu sé þeim aftrað í að sinna störfum sínum.

Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á 2. gr. laganna þannig að gefinn verði kostur á því að dýr verði send úr landi ef þau eru t.d. flutt inn án heimildar en gildandi ákvæði kveður á um að þeim sé tafarlaust lógað. Þá verði kveðið skýrar á um hvenær innflutningi telst lokið.

Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um starfsemi sóttvarna- og einangrunarstöðva í 7. gr. laganna. Þá verði heimildir Matvælastofnunar skýrðar nánar í 15. gr. laganna í þeim tilfellum þegar upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur, óeðlileg eða óútskýrð afföll eða rökstuddur grunur um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð og skyldur rekstraraðila þeirra til að hlíta fyrirmælum Matvælastofnunar.

Líkt og hér hefur verið rakið er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að tryggja að Matvælastofnun geti betur framfylgt sínum lögbundnu skyldum. Áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu, m.a. að tryggja stofnuninni frekari úrræði, eru talin stuðla að því. Þá þykir brýnt að meðalhófs sé gætt og umráðamönnum dýra gefinn kostur á því að dýr verði send úr landi í þeim tilvikum þegar innflutningur er óheimill eða þau sleppa frá flutningsförum. Framangreint krefst breytinga á gildandi lögum um innflutning dýra og því er þetta frumvarp flutt.

Það skal sérstaklega tekið fram að þessar lagabreytingar eru ekki vegna þeirra breytinga sem verið er að gera á regluverki um innflutning hunda og katta í kjölfar nýs áhættumats sem var unnið af fyrrum yfirdýralækni Danmerkur að beiðni ráðuneytisins. Á grundvelli þess verða gerðar reglugerðarbreytingar sem snúa m.a. að því að skýra hugtök, stytta einangrun hunda og katta og setningu sérstakra skilyrða vegna innflutnings hjálparhunda. Þær breytingar munu taka gildi innan tíðar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vísa að öðru leyti til greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni frumvarpsins. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.