151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrslugjöfina hér í dag. Ég tel að þetta form sé löngu búið að sanna gildi sitt. Bæði geta hv. þingmenn átt milliliðalaust samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra getur komið með mikilvægar upplýsingar hingað inn í þingið, leiðrétt rangfærslur eða misskilning eða farið betur í gegnum mál sem oft og tíðum eru flókin. Það er náttúrlega gríðarlega ánægjulegt og mikilvægt sem komið hefur fram, að 92% landsmanna séu ánægð með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Mér finnst það líka mikilvægt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra um að á Íslandi séum við núna með eitt opnasta samfélagið í heiminum og okkur hafi tekist að bregðast við því sem hefði getað orðið að hópsmiti. Í þessu er mjög mikið af jákvæðum og mikilvægum tíðindum.

Mig langar að nota þennan tíma til að spyrja og eiga orðastað við hæstv. ráðherra um það hvað hún telji, núna þegar komin er svolítil reynsla á þetta, hafa gagnast okkur hvað best í því að ná þessum góða árangri, ekki bara í því að hemja veiruna heldur einnig á þann hátt að langstærstur hluti landsmanna er jafnframt ánægður með það.