151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo að það sé bara sagt hér aftur gengur tillaga sóttvarnalæknis varðandi það hvaða plögg megi taka gild á landamærum út á að það sé í fyrsta lagi alþjóðlega bólusetningarskírteinið sem við þekkjum öll og í öðru lagi vottorð sem sé sambærilegt því sem notað er í Evrópu um það að viðkomandi hafi verið bólusettur með því bóluefni sem hefur verið tekið gilt í Evrópu. Þannig að það er líka áskilið. Þá erum við að tala um þessi efni sem við þekkjum, AstraZeneca, Moderna, Pfizer og núna Janssen. Það er útgangspunktur. Og svo í þriðja lagi vottorð um fyrri sýkingu eða sérstakt mótefnavottorð.

Já, ég held að við munum draga ýmsa lærdóma af þessari lotu en hún er ekki búin. Ég er sérstaklega ánægð með að mér finnst við að öllum jafnaði hafa verið gæfusöm í því að gera veiruna ekki að pólitísku bitbeini. Mjög víða um heim hefur það gerst að stjórnmálaflokkar hafa viljað nýta sér stöðuna í baráttunni við veiruna til að lyfta pólitískri stöðu tímabundið í stað þess að snúa bökum saman í baráttunni gegn veirunni. Það hefur verið meginregla hér og fyrir það getum við líka þakkað.

En ég vil líka segja að ég held að við landsmenn séum svolítið vön því að eiga samskipti við vísindamenn á sviði jarðvísinda og við gerum það náttúrlega iðulega þegar um er að ræða náttúruvá. Þannig að ég held að við séum töluvert þjálfuð í því að eiga samskipti við og treysta og skilja vísindafólk.