151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:32]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra munnlega skýrslu um sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19 og finnst skýrslan, eins og fyrri skýrslur, upplýsandi. Nú styttist í vorjafndægur, bólusetningar og baráttan gegn kórónuveirunni gengur býsna vel hér á landi og það styttist í kraftmikla viðspyrnu á öllum sviðum samfélagsins. Mér finnst enn og aftur tilefni til að rifja það upp og halda því til haga að þetta síðasta ár höfum við upplifað þá tíma sem ekkert okkar bjóst við þrátt fyrir að hafa þá vitneskju úr lífvísindunum að við gætum alltaf átt von á heimsfaraldri. En við höfum líka upplifað einstaka tíma og samvinnu alþjóðasamfélagsins, alþjóðavísindasamfélagsins og stjórnmálanna um allan heim þar sem sett var skýrt markmið um að einhenda sér í þróun bóluefna og farið í samvinnu og samninga um rannsóknir og þróun og nú erum við komin með leyfi til að nota fjórar tegundir bóluefna hér á landi.

Afhendingaráætlanir hafa hins vegar færst aðeins fram og aftur í tíma, eins og búast má við þegar unnið er með jafn viðkvæmt efni og bóluefni. Það er því erfitt að benda á tiltekna dagsetningu þar sem bólusetningu lýkur. Kannski skiptir það líka meira máli að við áttum okkur á því hversu stór hluti þjóðarinnar þarf að vera bólusettur til að hægt sé að slaka verulega á sóttvörnum innan lands þótt áfram verði haldið í persónulegar smitvarnir. Þess vegna spyr ég: Er til reiknilíkan sem sýnir samspil sóttvarna og fjölda bólusettra? Eða með öðrum orðum: Hvenær verða líkur á smiti og alvarlegum veikindum orðin það lítil að hægt verður að létta verulega á sóttvarnaaðgerðum innan lands? Hvernig ætlum við að finna það út?

Þá vil ég spyrja um stöðu þeirra sem enn glíma við alvarlegar afleiðingar Covid og hvort nægjanleg endurhæfingarúrræði séu til staðar.