151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi endurhæfingu og eftirfylgni gagnvart þeim sem hafa upplifað og orðið fyrir alvarlegum eftirköstum eftir að hafa veikst af Covid-19 þá höfum við beint sjónum okkar sérstaklega að því. Annars vegar í gegnum sérstakt fjármagn sem hefur verið ráðstafað í endurhæfingu fyrir þennan hóp, sem voru 200 millj. kr. á síðasta ári sem við ráðstöfuðum fyrst og fremst fyrir þjónustu við þann hóp og líka fyrir endurhæfingu almennt og Reykjalundur hefur verið í broddi fylkingar í þeim efnum. Hins vegar höfum við ekki síður þurft að huga að því að heilsugæslan, með Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu í miðjunni, þekki þessi einkenni og geti ráðlagt fólki áfram, bæði þeim sem eru með vægari einkenni og líka þeim sem þurfa mögulega á þróaðri eða sérhæfðri þjónustu að halda.

Varðandi líkan um þetta samspil þá er væntanlegt líkan þar sem við getum séð þetta samspil með skýrari hætti, þ.e. áhrif faraldursins á heilbrigðiskerfið, álagið á heilsufar o.s.frv., með hliðsjón af mismunandi framgangi bólusetningar og þess háttar. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að slíkt líkan sé til staðar þó að áætlanir taki breytingum vegna þess að þetta samspil allt saman við bóluefnaframleiðendur er iðulega tvö skref áfram og eitt aftur á bak og við erum orðin býsna sjóuð í því. En líkan af þessu tagi væri sannarlega til bóta og er í smíðum.