151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, markmiðið með þessari breytingu er m.a. að koma í veg fyrir ítrekaðar endurupptökubeiðnir og skilgreining sambærilegs hugtaks er í tilskipun Evrópuþingsins. Það er grunnskilyrði fyrir alþjóðlegri vernd að umsækjendur séu á landinu og það skilyrði fellur niður ef aðili hefur farið af landinu. En allt þetta lýtur að því að endurtekinni umsókn skal vísað frá, fylgi henni ekki einhver ný gögn sem leiða til þess að verulegar auknar líkur séu á því að aðilinn fái aftur vernd. Þannig að þetta á að girða fyrir það að mestu leyti. Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns um sakavottorð þá hefur það ekki verið krafa til umsækjenda um alþjóðlega vernd, enda er þetta fólk á flótta og almennt er talið að fólk sé í leit að alþjóðlegri vernd og að flýja ofsóknir. Matið er á grundvelli ýmissa annarra gagna sem lögð eru fram við umsókn um alþjóðlega vernd.