151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:22]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Hér er verið er að túlka lagatexta og reglur í hag kerfisins. Þetta frumvarp felur í sér að verið er að auka skilvirkni í kerfi sem er nú þegar ómannúðlegt og fjandsamlegt gagnvart fólki sem er í mjög viðkvæmri stöðu. Sem dæmi má nefna hvernig íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að ríghalda í þá útskýringu hvað telst til öruggra ríkja. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að Ungverjaland, Grikkland og Ítalía teljist örugg endursendingarríki. Það er bara ekki rétt. Í frétt á ruv.is frá 22. september 2020 þar sem m.a. var fjallað um flóttafólksbúðirnar á Lesbos kom fram að Læknar án landamæra hafi lýst þeim búðum sem helvíti á jörð. Hvernig telur ráðuneyti hæstv. dómsmálaráðherra það réttlætanlegt að senda fólk til baka í aðstæður sem lýst er sem helvíti á jörðu, á grundvelli þess sem hefur verið ákveðið að skilgreina sem tilhæfulausar umsóknir, og endursenda fólk í augljóslega hættulegar aðstæður af því að ráðuneytið getur ekki séð sóma sinn í því að tryggja að kerfið geti verið til staðar fyrir það fólk sem þarf hvað mest á því að halda? (Forseti hringir.) Trúir hæstv. dómsmálaráðherra því í alvörunni að þessar breytingar séu þeim í hag sem sækja hér um alþjóðlega vernd?