151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta er búin að vera áhugaverð umræða um mikilvæga málaflokk. Ég hef nú kosið að nálgast þennan málaflokk með tvennum hætti, þ.e. að við eigum að sjálfsögðu að horfa til þeirra einstaklinga sem eru svo sannarlega í neyð og þurfa aðstoð og leita til okkar. Á sama tíma tel ég mjög æskilegt að við reynum að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem eru til boða í þessum málaflokki með skynsamlegum hætti og við reynum að fá sem mest fyrir peninginn, eins og sagt er, þegar við erum að aðstoða fólk í neyð þannig að við getum hjálpað sem flestum.

Dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi í aprílmánuði á síðasta ári um breytingu á lögum um útlendinga. Frumvarpinu var ætlað að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða fljótt og örugglega umsóknir sem ekki leiða til veitingar alþjóðlegrar verndar. Frumvarpið náði ekki fram að ganga vegna ósættis í ríkisstjórninni og ég held að þetta frumvarp fari sömu leið. Það er mín skoðun. Vonandi kemur annað á daginn, en ég tel að það sé ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál.

Það er brýnt að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna svo það megi auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartímann og draga úr óþarfa kostnaði fyrir ríkissjóð. Og þar sem ég sit í fjárlaganefnd þá ber mér að sjálfsögðu að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga, þ.e. að þeim fjármunum sem veittir eru í hvern málaflokk fyrir sig sé vel varið og þeir séu nýttir á sem bestan hátt. Ég tel að þetta frumvarp sé skref í rétta átt en gangi ekki nægilega langt hvað það varðar.

Nú ber svo við að Ísland veitir bestu þjónustuna fyrir hælisleitendur í allri Evrópu og á Norðurlöndunum. Þetta hefur verið staðfest í tvígang hjá dómsmálaráðuneytinu á fundi með fjárlaganefnd. Þetta eru náttúrlega ákveðin skilaboð út í heim sem munu hafa það í för með sér að umsóknum um alþjóðlega vernd mun fjölga hér á landi. Þær eru nú þegar orðnar flestar hér á landi af Norðurlöndunum og hlutfallslega fjölmennastar, eins og nefnt var áðan í ræðu dómsmálaráðherra. Á hverja 10.000 íbúa eru umsóknirnar 18 hér á landi en þrjár í Noregi og Danmörku, þannig að það er augljóst að hér er gríðarlegur munur á og hluti af því náttúrlega er að hér er veitt góð þjónusta.

En spurningin er þessi: Erum við viðbúin því að taka á móti miklum fjölda umsókna? Það gerðist t.d. í Noregi fyrir ekki svo mörgum árum síðan að það komu um 6.000 hælisleitendur að landamærum Noregs frá Rússlandi á nokkrum vikum. Stjórnvöld í Noregi voru ekki viðbúin þessu, þetta olli vandræðum og nokkuð hörðum orðaskiptum í norska þinginu og varð til þess að lögunum var breytt og þau þrengd hvað þetta varðar, ef svo má að orði komast.

Varðandi þetta frumvarp þá vekur það náttúrlega óneitanlega athygli að í kafla frumvarpsins um mat á áhrifum, á bls. 19, segir að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé ekki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem svo nokkru nemur. Jafnframt segir í frumvarpinu að auka eigi skilvirkni og gera framkvæmd skýrari og fyrirsjáanlegri. Frumvarpið á sem sagt að auka skilvirkni en það á ekki að fela í sér neinn sparnað. Það þykir mér sérstök nálgun, herra forseti. Þetta er jú málaflokkur sem fer stöðugt fram úr fjárheimildum. Rétt fyrir jól samþykkti Alþingi aukafjárveitingu vegna hælisleitenda upp á 400 millj. kr. og á fundi í fjárlaganefnd nú fyrir skömmu kom fram að það vantaði nú þegar 150 millj. kr. til viðbótar, þrátt fyrir að málaflokkurinn útlendingamál fái 4 milljarða kr. í fjárlögum þessa árs.

Ég kom aðeins inn á það áðan að fjárlaganefnd gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki þegar kemur að fjárlögum ríkisins og ekki síst núna þegar skuldaaukning ríkissjóðs hefur orðið svo gríðarleg að við þurfum að horfa í hverja einustu krónu. Hlutverk fjárlaganefndar er m.a. að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga, eftirlit með því hvernig farið er með þá peninga sem stofnunum ríkisins er úthlutað ár hvert, og það kemur skýrt fram í lögum um opinber fjármál.

Fjárlaganefnd sendi dómsmálaráðuneytinu nokkrar spurningar um útgjöld vegna alþjóðlegrar verndar og vil ég þakka formanni fjárlaganefndar fyrir það frumkvæði að senda þessar spurningar til ráðuneytisins vegna þess að þær eru mjög mikilvægar. Þarna voru t.d. spurningar eins og hvaða leiðir ráðuneytið telur færar til að ná fram kostnaðarlækkun í málaflokknum. Þarna er fjárlaganefnd að fylgja því eftir að menn reyni að nýta fjármunina sem best.

Ég verð að segja það, herra forseti, að svörin voru heldur rýr. Ég skal nefna eitt svar sem kom frá dómsmálaráðuneytinu. Það hljóðar svo: Þegar kemur að mati á kostnaði við umsækjendur um alþjóðlega vernd eru það mjög margar breytur úr ólíkustu áttum sem geta haft áhrif á niðurstöðu. Herra forseti. Þetta er náttúrlega ekkert svar. Það er verið að spyrja um hvernig menn ætla að lækka kostnaðinn og þá er svarið bara: Það eru margar breytur úr ólíkum áttum sem geta haft áhrif á niðurstöðu. Hvers vegna getum við ekki fengið að vita hver kostnaðurinn er fyrir hvern hælisleitenda þegar Danir vita að kostnaðurinn við hvern hælisleitanda í Danmörku sem hefur fengið höfnun, þ.e. neitun, er 6 millj. kr. á ári? Ég verð að segja það að hér til hliðsjónar hefur fjárlaganefnd lög um opinber fjármál og þau eru skýr: Ráðherra á, með sínum forstöðumanni, að grípa til aðgerða ef sýnt þykir að fjárveitingar duga ekki og forstöðumaður á að gera grein fyrir því til hvaða aðgerða hann ætlar að grípa. Ef fjárveitingin dugar ekki á hann að koma fyrir ráðherra og hafa samband við fjármálaráðherra og gera honum grein fyrir málinu. Þetta er í 34. gr. laga um opinber fjármál og er mjög skýrt. Lögin loka á opna tékka. Það verður að segjast eins og er að svar eins og þetta frá ráðuneytinu, sem segir að margar breytur úr ólíkustu áttum geti haft áhrif á niðurstöðuna hvað þetta kostar, er bara opinn tékki sem ráðuneytið er að gefa í skyn, á sama tíma og lög um opinber fjármál segja að þetta geti ekki verið með þessum hætti. Lögin segja bara stopp þegar fjárveitingar eru búnar. Það er ósköp einfalt. Og svo sannarlega eigum við að hjálpa þeim sem eru í neyð. En við getum ekki hjálpað öllum. Það er bara þannig. Það hefur m.a. forsætisráðherra sagt, svo það sé sagt hér.

Ég verð líka að segja það, herra forseti, af því að ég er að tala um fjárlaganefnd og sit í fjárlaganefnd, að mér finnst nefndarmenn vera áhugalausir um að fylgja því eftir að það sé eitthvert haldreipi í þeim svörum sem berast við fyrirspurnum. Þegar svörin við þessum spurningum frá nefndinni voru tekin fyrir á nefndarfundi hafði nánast enginn nefndarmaður áhuga á því að spyrja nokkurn skapaðan hlut út í þau. Það verður bara að segjast eins og er að sá sem hér stendur var sá eini sem spurði um þessi svör. Það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga að við höfum ekki ótakmarkaða fjármuni í þennan málaflokk. Það er bara þannig. Þess vegna hef ég ávallt verið þeirrar skoðunar að við eigum að nýta fjármunina sem best.

Nú hefur t.d. stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sér um flóttamannaaðstoð í Miðausturlöndum, fyrir Palestínumenn, gefið það út opinberlega hvað það kostar að hjálpa flóttamönnum á því svæði. Kostnaðurinn er þannig að við gætum hjálpað 12–15 einstaklingum í Miðausturlöndum fyrir þann kostnað sem það kostar að hjálpa einum einstaklingi hér á Íslandi. Ég vil nálgast þennan málaflokk með þessum hætti, að við setjum aukna fjármuni í að hjálpa þeim einstaklingum sem búa nálægt heimaslóð og þurfa aðstoð þar. Verið er að veita fólki ágæta þjónustu á þessum svæðum. Það er húsnæði, það er heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, það er menntun, þannig að verið er að veita fólki góða þjónustu. Hún kostar að sjálfsögðu fjármuni og þarna getum við nýtt fjármunina mjög vel. En að sjálfsögðu eigum við að halda áfram að taka á móti kvótaflóttamönnum og gera það vel, eins og við höfum gert hér heima á Íslandi.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi hér tilvitnun frá Edmund Burke þess efnis að framgangur hins illa nærðist á því að góðir menn gerðu ekkert. Ég tek heils hugar undir þessa merku tilvitnun. Þarna er einmitt rót vandans: Hvað hefur alþjóðasamfélagið gert til að koma í veg fyrir styrjaldir og ofsóknir, sem eru jú rótin að því að hingað sækir fólk í leit að vernd, og til annarra landa? Hefur alþjóðasamfélagið gert eitthvað í því að það eru yfir milljón múslimar sem sitja í fangelsi í Kína af þjóðarbroti uyghur — ég held að ég beri það rétt fram? Ég veit ekki til þess að alþjóðasamfélagið hafi gert mikið í því. Og fleiri dæmi mætti taka: Jemen, sú mikla neyð sem ríkir þar vegna stríðsátaka er að stórum hluta á ábyrgð Sádi-Arabíu, sem er vellauðugt ríki. Er verið að koma múslimum til hjálpar sem er ofsóttir í Kína? Nei, svo sannarlega ekki. Þannig að það er virkilega þörf á að við höldum á lofti mikilvægi þess að þeir sem bera ábyrgð á átökum, styrjöldum, sem leiða af sér ofsóknir, axli sína ábyrgð. Það er svo sannarlega þörf á því.

Bandaríkjamenn bera mikla ábyrgð á flóttamönnum sem koma frá Afganistan vegna stríðsrekstrar sem þeir hafa staðið fyrir þar um árabil. Ég held að það sé rétt að íslensk stjórnvöld komi því á framfæri hverjir það eru sem bera í raun og veru ábyrgð á því að hér eru tugir milljóna á flótta í heiminum. Við getum ekki hjálpað öllum, því miður, en við getum hins vegar gert kerfið okkar skilvirkara og nýtt fjármunina betur. Ég mun halda áfram að tala fyrir því. Þetta kerfi, eins og öll önnur kerfi, er misnotað. Hingað sækja einstaklingar sem þurfa ekkert á þessu kerfi að halda og þeir þiggja þá þjónustu sem er í boði þar til þeir fá niðurstöðu, sem getur tekið marga mánuði. Það kostar peninga. Þessa peninga væri hægt að nýta til að hjálpa sannarlega nauðstöddu fólki nálægt sinni heimabyggð, eins og t.d. í Miðausturlöndum og ég rakti hér. Þannig að það þarf að sníða af þessa vankanta af þessu kerfi.

Þetta frumvarp er liður í því þó að að mínum dómi þurfi að gera ýmislegt fleira. Hingað koma t.d. einstaklingar margsinnis, aftur og aftur. Þeir hafa fengið neitun en þeir koma aftur. Það eru dæmi um það, eins og ég nefndi hér í andsvari, að einstaklingur hafi komið hér fjórum sinnum og fengið alltaf sömu þjónustuna í marga mánuði. Það á ekki að vera hægt að spila svona á þetta kerfi. Ekki viljum við að almannatryggingakerfið sé misnotað, að sjálfsögðu ekki. Þá á það sama að gilda um þetta kerfi. Hvers vegna má aldrei ræða þetta þegar þessi málaflokkur er annars vegar? Þá fara menn í einhverjar skotgrafir o.s.frv. Það er nú einu sinni þannig að þarna eru vankantar á sem þarf að sníða af. Það þarf að gera þetta kerfi skilvirkara svo við getum nýtt fjármunina sem allra best. Það eru mín skilaboð í þeirri umræðu. Og þar sem ég sit í fjárlaganefnd finnst mér ekki eðlilegt að þessi málaflokkur geti endalaust fengið aukafjárveitingar þegar úr takmörkuðum fjármunum er að spila. Ég læt það vera mín lokaorð í þessari umræðu.