151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur alltaf ákveðnar spurningar hjá mér þegar vísað er í það sem þjóðríki eins og Sádi-Arabía gera þegar við erum til umræðu. Spurt er: Af hverju gerir Sádi-Arabía þetta ekki einhvern veginn öðruvísi? Sádi-Arabía er hrikalegt þjóðríki stjórnað af trúarofstæki og mikilli kúgun og það er ekkert þar sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar varðandi stjórnarhætti að mínu mati, og ég hygg að hv. þingmaður sé sammála mér um það. Það er þess vegna sem við ættum, kannski sér í lagi út frá kristnum gildum eða þeim sem ég aðhyllist, sem eru reyndar ekki kristin en þó samhljóða, að gera betur en náunginn. Við eigum að vera betri en annað fólk. Við eigum að elska óvini okkar og sér í lagi náungann. En það er svo sem önnur umræða.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður telur að við eigum að ná því markmiði að Evrópa taki sig á, ef við erum ekki með þá orðræðu að hún eigi að taka sig á, að það sé lausnin á flóttamannavandanum í Evrópu að hvert þjóðríki taki við fleira fólki, hælisleitendum eða úr öðrum áttum, frá Sameinuðu þjóðunum eða hvað eina. Orðræðan hjá hv. þingmanni og flokki hans og fleirum, og vissulega frá ríkisstjórninni, er sú að við eigum að gera eins og hin ríkin sem eru að þrengja skilyrðin, að við eigum að gera eins og þau ríki sem eru að herða reglurnar, en við eigum ekki að gera eins og þau ríki sem eru að útvíkka reglurnar, sem eru reyndar engin þessa stundina, mér að vitandi. Hvernig eigum við að ná þessu markmiði, virðulegi forseti, ef við segjum að Evrópa eigi að taka við fleira fólki og dreifa því um álfuna, á sama tíma og við erum með sömu orðræðu og hin þjóðríkin, að við eigum að þrengja reglurnar í hverju landi? Þar skynja ég ákveðna mótsögn. Ég kann leiðina út úr henni en það er vegna þess að ég er ósammála hv. þingmanni.