Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki neinu við að bæta varðandi upplýsingagjöfina og gagnsæið. Það kemur reyndar á óvart að fá það á tilfinninguna þegar hv. þingmaður flytur ræðu sína að hann virðist vera mjög ánægður með fyrirkomulagið eins og það er í lögunum. Þó er hér um að ræða þingmann sem hefur hvað mest gagnrýnt þetta allt saman.

Það sem við höfum boðað er tvennt: Að ekki verði af frekari sölu eignarhluta í bili fyrr en fyrirkomulagið hefur verið endurskoðað og að við munum leggja þær tillögur fyrir Alþingi þegar að því kemur. Ég held að það sé bara samandregið komið ágætlega fram varðandi undirbúning, aðdraganda og kynningu á þessu máli, bæði fyrir og eftir framkvæmd útboðsins, að við teljum að það hefði mátt takast betur.

Varðandi þá ákvörðun sem var tekin að kvöldi útboðsdagsins þá lá það fyrir að vænta mætti þess að eitthvert frávik væri frá síðasta skráða markaðsgengi í svona stóru útboði. Það var rætt í ráðherranefnd, það var rætt í ríkisstjórn og ég vænti þess að það hafi verið rætt í þingnefndunum. Ég held að allir sanngjarnir menn sjái að það var ekki við öðru að búast. Þegar Bankasýslan kemur síðan með tillögu til mín um að fallast á gengið 117 í þessu útboði þá get ég sagt að það var innan þeirra sársaukamarka sem maður hafði séð fyrir sér að geta lifað með við framkvæmd útboðsins. Sömuleiðis leggur Bankasýslan okkur í hendur grófa samsetningu á úthlutun eftir fjárfestategundum, þar sem m.a. kemur fram að erlendir fjárfestar fái 15%, hversu margir hafi sent inn tilboð o.s.frv., og lýsir því yfir að Bankasýslan muni fylgja þeim viðmiðum (Forseti hringir.) sem er að finna í lögum og tilmælum fjármálaráðuneytisins auk hefðbundinna viðtekinna venja á hlutabréfamarkaði (Forseti hringir.) við endanlega úthlutun. Og það féllst ég á.