Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hér er spurning um lagalega ábyrgð. Ráðherra hefur ítrekað sagt að hann hafi ekki átt að leggja mat á hvert og eitt tilboð, að hann eigi ekki að handvelja kaupendur. Hér er eitt rétt og annað rangt eins og gengur og gerist í málflutningi ráðherra, að fela rangfærslur innan um önnur sjálfsögð sannindi. Auðvitað á ráðherra ekki að handvelja kaupendur á pólitískum forsendum en á sama tíma á ráðherra samt að leggja mat á þau tilboð sem eru lögð á borðið fyrir framan hann á faglegum nótum, eins og nánar er tiltekið í greinargerð laga um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, með leyfi forseta:

„Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu.“ — Og við erum í tilboðssölu. — „Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.“

Einnig stendur í greinargerðinni:

„Nauðsynlegt er að við mat á tilboðum og ákvörðun um töku tilboða hafi þessir aðilar“ — og þá er verið að tala um ráðherra og Bankasýslu — „að leiðarljósi þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar við sölumeðferð …“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann skilur þennan hluta greinargerðarinnar. Hvernig er hægt að túlka þennan texta á annan hátt en að það sé á ábyrgð ráðherra að leggja mat á einstaka tilboð í hefðbundninni tilboðssölu, þá ekki pólitískt mat heldur faglegt mat með tilliti til þeirra skilyrða sem ráðherra sjálfur setti Bankasýslunni í greinargerð sinni? Eða voru einu forsendurnar og skilyrðin sem voru sett kannski bara um söluverð og magn eða, eins og ráðherra sagði í andsvari áðan, að það hafi verið ákveðið að láta lífeyrissjóðina ekki fá allt það sem þeir báðu um? Samt stendur í greinargerð fjármálaráðuneytisins að verið sé að selja stærri hlut og þess vegna sé tilboðsleiðin valin.