Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skráð bréf eru verðmætari en óskráð bréf svona að meginreglu til. Og þetta með að segja að bréf eigi að hækka um 5%, að það sé skrifað í fræðibækur, er auðvitað bara bull, algert bull. Það sem við gerðum á sínum tíma var að fá hæfa ráðgjafa til liðs við Bankasýsluna. Við leituðum upplýsinga af innlenda markaðnum og í útlöndum og það gekk satt best að segja bara töluvert mikið betur en maður hélt fyrir fram, sérstaklega varðandi erlendu eftirspurnina. Við höfum ávallt lagt mat á það hvernig bankinn er verðlagður í samanburði við sambærilega banka í öðrum löndum.

Hérna erum við enn að tala um fyrri söluna. Ég er reyndar mættur hingað í dag til að tala um síðari söluna, en gott og vel, hv. þingmaður er mjög reiður yfir almenna útboðinu frá því í fyrra og fullyrðir að við höfum bara með opin augun selt fólki bankana á allt of lágu verði. Mér finnst þetta ekki standast nokkra skoðun. Það er nú bara mín skoðun. Ég bendi á að frá því að við skráðum bankann þar til árið var liðið hafði hann hækkað eiginlega bara nákvæmlega jafn mikið frá fyrsta viðskiptadegi til loka árs og Arion banki, eins og kemur fram í gögnum sem voru lögð fyrir þingið. Ekki hækkaði Síldarvinnslan um þessi 5%, sem hv. þingmaður hefur komist að að sé rétt hækkun eftir skráningu. Hvað gerðist í tilfelli Síldarvinnslunnar að mati hv. þingmanns? Af hverju hækkaði ekki Síldarvinnslan bara um 5% sem var búið að skrifa einhvers staðar að félög eigi að hækka um eftir að hafa verið skráð? Æ, vitið þið, ég held að það sé eiginlega ekkert hægt að segja meira um þessa vitleysu.