Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:52]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, við skulum fara faglega yfir þetta mál. Það hefur ýmislegt gengið á hér í þingsal frá því Íslandsbankasalan var rædd á vegum fjármálaráðherra, m.a. í þessari pontu fyrir mánuði síðan. Þegar fjárlaganefnd hitti Bankasýsluna stuttu eftir söluna áttu forsvarsmenn stofnunarinnar ekki erfitt með að tjá sig um málið. Formaður og forstjóri töldu ekkert athugavert við söluna, framkvæmd né upplýsingaflæði. Að morgni útboðs talaði fjármálaráðherra um að salan hefði gengið ótrúlega vel. Hann taldi að lífeyrissjóðir hefðu verið í meiri hluta í kaupendahópi, burt séð frá því sem hæstv. ráðherra var að segja rétt í þessu, hann hefði verið ánægður með að þeir hefðu verið skertir. Nú stöndum við frammi fyrir því að Bankasýslan treystir sér ekki til að tjá sig við fjárlaganefnd áður en minnisblað, sem átti að vera tilbúið fyrir helgi, er tilbúið. Sömu einstaklingar og mættu og sögðu með mjög svo óheftum hætti frá því hversu stórkostleg salan var í sjónvarpsviðtali við Morgunblaðið fyrir ekki svo löngu síðan. Í umræðum um söluna í þinginu þann 30. mars sagði hæstv. fjármálaráðherra að salan hefði gengið, og ég vitna beint, með leyfi forseta, „vel á alla mælikvarða“. Hann bætti við: „Af öllu þessu má sjá að það er óneitanlega full ástæða til að hrósa Bankasýslu ríkisins fyrir góða niðurstöðu.“ Þetta er sami maður, virðulegi forseti, og var að leggja til að Bankasýslan yrði lögð niður. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi. Vissi hæstv. fjármálaráðherra ekkert á þessum tímapunkti? Hafði hann ekki hugmynd um hvernig ferlið fór fram? Vissi hann að þetta gekk ekki nógu vel en sagði ekki satt eða er þetta útspil núna að leggja niður Bankasýsluna bara til að þyrla upp ryki? Þetta er ekki traustvekjandi.

Við ræddum um mánuði síðar um litlu fjárfestana sem fengu að kaupa. Ég spurði hæstv. ráðherra út í þessa aðila þann 20. mars síðastliðinn og fékk eftirfarandi svar, með leyfi forseta:

„Það má þess vegna að spyrja sig hvort ástæða hefði verið að setja slíkt lágmark á þátttöku að þessu sinni vegna þess að þá hefðum við sagt við hina almennu fjárfesta, innlenda eða erlenda sem vildu fjárfesta fyrir einhverja slíkar fjárhæðir í bæði skiptin: Þið eruð óæskilegir. Ég veit ekki hvort tilefni var til þess að gera það.“

Málið er, virðulegi forseti, að það er nefnilega býsna margt sem bendir til þess að tilefni hafi verið til þess, eins og t.d. lög um sölu ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum þar sem talað er um að ekki megi víkja frá opnu söluferli nema rík ástæða sé til. Þær ástæður sem gefnar voru upp í minnisblaði frá Bankasýslunni til hæstv. fjármálaráðherra 20. janúar 2022 og fjárlaganefnd fékk einmitt að sjá eru að tilboðsferli sé besta leiðin til að hámarka verð og koma í veg fyrir kvikar hreyfingar á fjármálamarkaði. Litlir fjárfestar sem selja sig út, virðulegi forseti, og skuldsetja sig að fullu fyrir svona fjárfestingu eru mjög kvikir.

Hvaðan komu þessar hugmyndir allra að um stóra langtímafjárfesta væri að ræða? Erum við öll að misskilja? Er hæstv. fjármálaráðherra sá eini sem skilur hvað er í gangi? Málið er, virðulegi forseti, að bæði kallar fyrrgreind undanþága frá opnu ferli í lögunum á langtímafjárfesta og eins er gegnumgangandi í minnisblaði Bankasýslunnar til hæstv. fjármálaráðherra um söluna orðalag á þann veg að um stóra langtímafjárfesta sé að ræða. Kíkjum aðeins á þetta minnisblað frá 20. janúar síðastliðnum, förum yfir staðreyndir málsins. Byrjum á kafla þar sem er talað um að loka útboðinu fyrir hæfum fjárfestum þar sem segir, með leyfi: „Þátttaka lífeyrissjóða og verðbréfasjóða í slíku útboði mun þó alltaf tryggja aðkomu almennings með óbeinum hætti.“ Því næst er ýjað að því að fáir aðilar verði aðalatriði þegar sagt er að stofnunin telji að ekki sé verið að víkja til hliðar meginreglum um dreift eignarhald, „m.a. vegna takmarkana á beinni þátttöku almennings í sölu sem fer fram með tilboðsfyrirkomulagi, þar sem eignarhald á Íslandsbanka er þegar dreifðara en í öllum öðrum skráðum félögum á Íslandi. Því til viðbótar verður að horfa til þess að almennir fjárfestar geta þegar keypt hluti í bankanum á markaði“ — einmitt, það er nefnilega mjög auðvelt að kaupa litla hluti á eftirmarkaði. Til þess þarf ekki að bjóða afslátt í lokuðu útboði. Í kafla um áhuga og bolmagn fjárfesta kemur fram:

„Ef fyrst er vikið að innlendum fjárfestum, þá telur Bankasýsla ríkisins að eftirlitsskyldir aðilar eins og lífeyrisssjóðir, sjóðir rekstrarfélaga og tryggingarfélög hafi bolmagn og áhuga. Þá telur stofnunin að sama gildi um einstaklinga, sem teljast til hæfra fjárfesta, en þeir þurftu að sæta skerðingu í frumútboðinu m.a. vegna mikillar umframeftirspurnar og áherslu á dreift eignarhald á bankanum …“

Reyndar stenst þetta ekki skoðun út frá jafnræði. Það var engin sérstök ástæða fyrir að hleypa þeim að út frá jafnræði en þetta er að sama skapi eini staðurinn í minnisblaðinu þar sem er talað um þessa einstaklinga. Næst kemur, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins telur að lífeyrissjóðir muni sýna útboðinu verulegan áhuga. Þannig er ekki ólíklegt að stærstu sjóðirnir muni vilja auka við hlut sinn í samræmi við hámarkshlut …“

Og höldum áfram:

„Bankasýsla ríkisins telur að lífeyrissjóðir muni sýna útboðinu verulegan áhuga. Þannig er ekki ólíklegt að stærstu sjóðirnir muni vilja auka við hlut sinn í samræmi við hámarkshlut […] Þá er líklegt að margir þeirra, ásamt tryggingarfélögum, vilji ná vísitöluvægi á hlutum í Íslandsbanka eftir frekari sölu.“

Og hvað með erlendu fjárfestana sem höfðu þótt svo mikilvægir?

„Ef næst er vikið að erlendum fjárfestum, þá eru margir þættir sem benda til þess að þeir muni sýna frekari sölu áhuga. Þannig var töluverð þátttaka á meðal erlendra fjárfesta í frumútboðinu í júní sl. Þrátt fyrir það að einhverjir erlendir sjóðir hafi minnkað við stöðu sína í bréfum í bankanum frá frumútboðinu, hefur hlutdeild erlenda langtímafjárfesta (e. long only investors) haldist nokkuð stöðugt.“

Já, ekki mátti skilja af þessu að markmiðið væri að selja sömu erlendu fjárfestunum og seldu sig síðast út, sem síðan reyndist raunin. Aðilar sem tóku snúning í síðasta útboði og eru nú að senda skilaboð til alheimsins um að þetta sé eðlilegt verklag við sölu á ríkiseign á Íslandi.

Í niðurstöðukafla þessa minnisblaðs er rætt um mikilvæga undanþágu frá opnu útboði. Hvaða sérstöku aðstæður kalla á þetta sérstaka fyrirkomulag? Hvers vegna er farið á svig við grunnreglu laganna? Hvað segir um þessar ástæður á bak við undanþágunnar? Með leyfi forseta:

„Af framangreindu má sjá að vilji löggjafans var sá að gera mætti undantekningar, m.a. ef um sölu á minni eignarhlutum ríkisins væri að ræða eða aðrar sérstakar aðstæður kalli á slíkt. Ljóst er að með tilboðsfyrirkomulagi er yfirleitt seldur minni eignarhlutur en við almennt útboð eða beinni sölu ásamt því að sú áhætta sem felst í virkum og kvikum markaði með hlutabréf í Íslandsbanka mætti telja sem „sérstakar aðstæður“.“

Það er ekki hægt að skilja þessa áhættu sem hér er talað um það öðruvísi en um sé að ræða sölu til stórs stofnanafjárfestis sem heldur á bréfunum til lengri tíma. Það er ekki gott fyrir kvikan markað að litlir aðilar komi inn og taki snúning á bréfunum ef það er verið að skuldsetja sig fyrir sölu síðar meir. Þessi undanþága fauk út um gluggann þegar litlu fjárfestum var hleypt að af ástæðulausu. Hæstv. ráðherra talaði áðan sérstaklega um mikilvægi þess að skapa ekki markaðsröskun en finnst síðan ekkert athugavert við það þegar liggur fyrir að fjölda aðila var boðið að skuldsetja sig fyrir litlum hlut í þessu útboði.

Að lokum segir í minnisblaðinu, með leyfi forseta:

„Það er þó ljóst að slíkt fyrirkomulag er ekki að fullu í anda meginregla laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi. Þannig njóta ákveðnar fjárfestar betri réttinda en aðrir ásamt því að almenningur getur ekki tekið beinan þátt og þar með ekki tryggt fullt jafnræði bjóðenda. Aftur á móti er um að ræða hefðbundna venju á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum sem talin er ákjósanlegasta aðferðin …“

Já, og hver er venjan á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum? Hvað sagði forstjóri Bankasýslunnar í viðtali við Morgunblaðið um þessar hefðbundnu venju? Fáir stórir aðilar, langtímafjárfestar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að staldra áfram við þessa kviku fjárfesta sem virðast vera hliðarmál í útboði sem gekk vel af því að hæstv. fjármálaráðherra fékk 50 milljarða fyrir. Það er ekki góð hugmynd að hleypa að skammtímafjárfestum sem selja sig út ef áhyggjurnar eru af þessum kviku hreyfingum. 30 aðilar hafa minnkað við sig. Förum aðeins yfir þessa yfirlýsingu frá Bankasýslunni sem hæstv. fjármálaráðherra er svo tíðrætt um að taki af allan vafa um að einhverjir hafi selt sig út. Það er ekki rétt. Það eru 60 manns sem finnast ekki á hluthafalistanum, margir hverjir sem fjármögnuðu — það stendur í þessari yfirlýsingu — kaup sín í bankanum með lántöku sem er mjög dýr fyrir lánveitendur í bönkum. Þetta á hæstv. fjármálaráðherra að vita. Þetta er nær undantekningarlaust gert til að taka snúning. Þegar fjármálaráðherra sagði fyrir mánuði síðan að hann gæti ekki séð að vandi væri á höndum, hann sæi ekki tilefni til þess að segja við þessa litlu fjárfesta: Þið eruð óæskilegir, þá virðist um ákveðinn misskilning að ræða eða eftiráskýringu. Það var nefnilega tilefni til. Þetta er ekki í samræmi við undanþáguna sem var veitt frá þessu opna ferli. Það er nefnilega margt sem bendir til þess að þessi liður feli einmitt í sér að það hafi ekki verið farið eftir lögum.

Þetta vindur víða upp á sig, virðulegi forseti, til að mynda varðandi jafnræði eða getu til að hafa jafnræði í þessu útboði. Þegar ríkið selur einstaklinga hlut fyrir 1,1 millj. kr. hlýtur ráðherra að spyrja sig: Er verið að fara að lögum? Hvernig er hægt að tryggja að allir hæfir fjárfestar hafi aðgang að kaupum fyrir svona upphæðir? Hér er um að ræða vanrækslu ef þessi spurning kom ekki upp hjá ráðherra. Annað mál hefði verið um að ræða ef við hefðum séð stóra fjárfesta með bolmagn, þekkingu, langtímagetu til að standa með bankanum. Undanþágan á lögunum byggðu á því. Það hefði verið lítið mál að sjá öll þessi tilboð ef það hefði verið farin hefðbundin tilboðsleið, sem er ítrekað vitnað til í umræddu minnisblaði. Þá er hægt að samþykkja hvert tilboð. Rauða flaggið hefði einmitt átt að vera uppi þegar Bankasýslan, sem hún gerði, kemur með lista þar sem hún segir að 200 manns séu að kaupa í útboðinu. Þetta er ekki rautt flagg hjá ráðherra. Hann veltir því ekki fyrir sér: Af hverju erum við að veita undanþágu frá lögum fyrir 200 manns? Hæstv. ráðherra talar um skýr fyrirmæli. Hver voru eiginlega skýru fyrirmælin um að þetta væri í samræmi við lögin? Þarna er pottur brotinn. Þarna eru skilyrðin sem átti að uppfylla.

Ég verð að fá að leiðrétta það sem kom fram hérna áðan, að tilboðsfyrirkomulag sé „take it or leave it“, það er ekki þannig. Þetta er lokað útboð, þeir aðilar sem eru að selja í svona útboði geta gert upp á milli ef rík ástæða er til. Hvað hefði hæstv. ráðherra gert ef 1.000 manns hefðu mætt á þennan lista? Hefði hann bara tekið öll tilboðin? Þetta er bara ekki rétt og það verður að leiðrétta það í þessum sal og þetta á hæstv. fjármálaráðherra að vita eða a.m.k. fá ráðgjöf um.

Varðandi skerðingar og þess háttar sem hefur verið rætt hér þá liggur t.d. ekkert fyrir hvernig þessar skerðingar áttu sér stað, m.a. vegna þess að Bankasýslan hefur ekki skilað neinum gögnum um þetta mál. Það eina sem við vitum er að m.a. voru lífeyrissjóður skertir meira en einkafjárfestar þrátt fyrir að þeir hafi átt að fá forgang sem langtímafjárfestar miðað við bréf frá fjármálaráðherra þann 18. mars. Þar segir að horft verði til þess, við útfærslu og úthlutun í kjölfar tilboðsfyrirkomulags og ef nægjanleg umframeftirspurn verður í slíkum útboðum, að fjárfestar sem horfi til lengri tíma fjárfestinga verði fyrir minni skerðingu en skammtímafjárfestar. Við vitum í rauninni ekki hvort þetta hafi verið málið. Við vitum bara hér að áðan var hæstv. ráðherra segja að sér hefði fundist allt í lagi að langtímalífeyrissjóðir yrðu skertir meira en aðrir. Þetta er samt ekki það sem kom fram í tilkynningu orðrétt frá hæstv. ráðherra. Svo virðist hæstv. ráðherra líka vera ánægður með það til að mynda að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sé að kaupa núna á hærra gengi um 30 milljónir hluta eftir að þessum dreifðu mörgu litlu aðilum var hleypt að. Þetta stenst auðvitað enga skoðun, að halda aftur af kaupum lífeyrissjóða sem eru að fjárfesta fyrir almenningssparnað til þess eins að hleypa þeim svo að nokkrum dögum seinna og einhverjir tugir einstaklinga geta komið og tekið snúning. Lög um sölumeðferð ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum voru sett af ástæðu, virðulegi forseti. Það að fjármálaráðherra skjóti sér undan lagabókstafnum vegna þess að hann fékk 50 milljarða kr. í kassann — það segir sig sjálft að hann áttar sig ekki á vandamálinu.

Af þessari yfirferð virðist einfaldlega ljóst að fjármálaráðherra virðist fyrst og fremst hafa fundist skipta mestu máli hvað hann fékk, 50 milljarða, ekki hver eignaðist hluti eða hver hagnaðist á útboðinu og finnst ekkert við þetta athugavert. Fyrir mér er það risastórt vandamál.