Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum þá að hv. þingmaður vill halda í Bankasýsluna. Hv. þingmaður lagði ekki til að það yrði lágmarksverð í útboðinu og fullyrðir síðan að það samræmist engan veginn venju á hlutabréfamörkuðum að setja ekki lágmark í hlutabréfaútboði. En þannig er mál með vexti að ég hef spurst sérstaklega fyrir um þetta og fengið þau svör frá aðalráðgjafa Bankasýslunnar, STD, eins og þeir heita, að það sé ekki venja á hlutabréfamörkuðum að setja lágmarksverð í útboði, það sé ekki venjan, þvert á það sem hv. þingmaður heldur fram. Hér var sett það skilyrði að lögaðilar og aðrir sem ætluðu að taka þátt þyrftu að vera almennir fjárfestar, þyrftu að vera hæfir og þyrftu að greiða uppsett verð. Það voru helstu skilyrðin. Hv. þingmaður segir að við hefðum ekki átt að fá þessa smáu vegna þess þeir séu slæmir fyrir ferlið, þeir séu kvikir og það gæti valdið óróa á markaðnum. Þegar ég spyr síðan hvar þessi mikla hætta hafi raungerst eftir útboðið þá koma engin svör. Það koma engin svör — ef hv. þingmaður gæti hætt að tala í smástund meðan ég er að tala gæti ég kannski lokið ræðu minni — það koma engin svör vegna þess að bréfin hækkuðu eftir útboðið, jafnvel þótt nokkrir hafi selt sig út. Ekki lagði hv. þingmaður heldur til að menn mættu ekki selja bréfin sín eftir útboðið. Hér er því verið að tala um einhverja mikla hættu sem hv. þingmaður segist hafa séð fyrir fram. Hættan raungerðist ekki, bréfin héldu áfram að hækka og ríkissjóður græddi á hverjum degi við hækkunina og hefur grætt marga milljarða, kannski 10 milljarða frá því útboðið fór fram, 10 milljarða. Þetta eru því í sjálfu sér bara hugrenningar um hluti sem ekki gerðust. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta. Hv. þingmaður er með mikla eftiráspeki hér, nefndi engin af þessum meginatriðum fyrir fram (Forseti hringir.) og fullyrðir síðan að þetta sé viðtekin venja á hlutabréfamörkuðum þegar mínar upplýsingar frá aðalráðgjafa Bankasýslunnar eru einmitt ekki um það.