Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:32]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem á sér stað hér þar sem við reynum að átta okkur á þeim hlutum sem fóru fram í gegnum sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir skemmstu. Sitjandi í fjárlaganefnd þá fengum við ágæta kynningu á þessu verkefni og fengum til okkar gesti þar sem um málið var fjallað.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti og segi það hér og nú að ég var nokkuð ánægður með þá kynningu sem við fengum. Þar var farið vel yfir hlutina. Það hefur síðan komið á daginn að það eru ákveðnar brotalamir á ferlinu, og hefur svo sem verið rætt töluvert í dag, sem við sáum ekki fyrir mörg hver sem sitjum í nefndinni. Ég reikna með að það eigi við um fleiri sem hafa horft á málið utan frá. Því er mikilvægt að við veltum því fyrir okkur til hvers við lögðum af stað í þann leiðangur að minnka hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ferlið byrjaði, eins og flestir vita, fyrir ári síðan þar sem seldur var um 35% eignarhlutur. Það er í sáttmála ríkisstjórnarinnar þess efnis að haldið skuli áfram að selja hluti og nú fjöllum við um og tókum fyrir liðlega 22% sem fóru í gegnum þetta umrædda útboð, lokað útboð að mínum skilningi, þar sem hæfir fagfjárfestar — menn hafa verið að fjalla um það hvort þá sé verið að tala um fagfjárfesta eða hæfa fjárfesta í því samhengi — og hafa gert ágæta grein fyrir því hér í ansi mörgum ræðum. Markmiðið í upphafi og er enn var fyrir það fyrsta að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði. Það hlýtur að vera að þegar við erum að fara þá leið að minnka hlut ríkisins í fjármálastarfsemi og stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta, þá sé eitt af markmiðunum að minnka skuldsetningu og auka svigrúm ríkisins til samfélagslegra og arðbærra fjárfestinga sem er gríðarmikilvægt í þessu samhengi. Það er alveg ljóst eftir það sem á undan er gengið að ríkissjóður þarf á því að halda að fá inn aukið fé.

Ég er á þeirri skoðun að það hafi tekist vel til í mjög mörgum tilfellum hvað varðar þessi markmið. En eftir stendur þetta með þetta opna og gagnsæja ferli. Eftir því sem dagarnir líða og meira er skoðað í málinu liggur alveg fyrir, og það hefur komið mjög skýrt fram hjá ráðherrum, bæði forsætisráðherra, formanni Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra og fleiri stjórnarliðar hafa tjáð sig um það, að það að fara þá leið að Ríkisendurskoðun fari yfir málið og Fjármálaeftirlitið sömuleiðis er mjög mikilvægt í þessu samhengi til að velta við öllum steinum. Við getum ekki haldið áfram með þetta söluferli fyrr en við höfum velt við öllum steinum og skoðað hvað gerðist. Hvers vegna varð niðurstaðan þessi í útboðinu? Hvers vegna er niðurstaðan allt önnur en við sem fjölluðum um málið í nefndum sáum fyrir? Þarna hlýtur einhver brotalöm að hafa orðið. Það hefur verið mikið rætt um Bankasýsluna og hennar aðkomu að málinu. Hún hefur svo sem haldið kynningar fyrir okkur, komið fyrir fjárlaganefnd tvisvar sinnum eftir þessa sölu og ætla ég ekki að tíunda það neitt frekar, það hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum sem hafa lýst þeirra nálgun á það hvernig þeim fannst hafa tekist til.

Ég verð að segja að það olli mér alveg feiknarlegum vonbrigðum að Bankasýslan hafi farið þá leið, sem þeir fóru nú í morgun, að geta ekki mætt fyrir fjárlaganefnd og hafa ekki verið búnir að svara þeim spurningum sem við lögðum til fyrst 7. apríl, að mig minnir, og síðan bættust við 13. apríl. Það hefði verið afskaplega gott fyrir þessa umræðu hér í dag að hafa verið búin að fá svör við þeim spurningum sem fjárlaganefnd lagði til. Ég hugsa að umræðan hér í dag hefði verið ansi mikið upplýstari og að við værum með einhver fleiri svör á reiðum höndum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það í þessu því við getum alltaf farið þá leið að horfa til þess að svona hlutir geta komið upp. Það er t.d. eitt sem hefur farið afskaplega mikið fyrir brjóstið á mjög mörgum, þar á meðal mér, en það er upphæðin sem var greidd í söluþóknun, 700 milljónir. Það er að mörgu leyfi eðlilegt að söluráðgjafarnir eða þeir sem sáu um að selja bréfin fyrir Bankasýsluna taki ákveðna söluþóknun fyrir sem er yfirleitt bundin við einhverja prósentutölu. Yfirleitt er það á milli 2% og 3%. Í þessu tilfelli nemur sú prósentutala, ef ég hef reiknað þetta rétt, 1,4% og jú, vissulega lægri þóknun í prósentum talið en það breytir því ekki að 700 milljónir eru ansi miklir peningar. Jú, vissulega var verið að höndla þarna með veltu sem nemur 306 dögum á markaði, á ársmarkaði rúmir 50 milljarðar sem um ræðir þarna, en 700 milljónir eru samt sem áður, þó að prósentutalan sé lág, þ.e. 1,4%, verulega miklir peningar. Ég skil mætavel að það fari fyrir brjóstið á ansi mörgum.

Ef við veltum því fyrir okkur sem hefur mikið verið rætt um, þ.e. hver beri ábyrgð á hlutunum þá ætla ég svo sem ekkert að setjast í eitthvert sérstakt dómarasæti hér í ræðustól Alþingis og kveða upp úr um það hver beri ábyrgð á hlutunum. En ég lít þannig á að við öll sem komum að einhverjum hluta að málinu í ferlinu og gerðum ekki athugasemdir við ferlið almennilega berum vissulega einhverja ábyrgð á því. Maður getur ekki fríað sig ábyrgð þegar maður hefur ekki — jú, maður var við vinnuna, tók við miklu magni af upplýsingum en gerði ekki athugasemdir. Ég ætla ekki að fría mig ábyrgð á því og ég vona að þeir sem tóku þátt í þessari vinnu og gerðu í sjálfu sér ekki, eins og maður segir, skriflegar athugasemdir taki það líka til sín.

Í því samhengi verðum við að horfa til þess að mikilvægi þess að Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn fari yfir hlutina er bara til þess að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Ég get líka verið þar að ef okkur þykir það vera svo að við þurfum að fá fleiri upplýsingar eftir þeirra rannsókn þá er ég fyrsti maðurinn til að mælast til þess að hér verði sett á fót rannsóknarnefnd þingsins sem haldi þá áfram með rannsóknina. Við verðum líka að hafa í huga að Seðlabankinn, eða Fjármálaeftirlitið sem er þar inni núna, hefur mjög víðtækar rannsóknarheimildir.

Markmið, jú, ég get sagt að ég er ágætlega sáttur með að við fengum gott verð. Þar er ég bara sáttur. Það eru ansi margir sem eiga hlut í bankanum. Vissulega eru stórir hluthafar um 77% af heildarhlutafénu, en það er fjöldinn allur af hluthöfum þarna inni og ekkert óeðlilegt við að menn sem kaupa sér hluti og eru á hlutabréfamarkaði selji sinn hlut ef þannig ber við. Það er ekkert óeðlilegt við það. Við fengum líka ágætar útskýringar á því, sem ég tek mjög vel trúanlegar, að þegar settir eru einhverjar takmarkanir á það hvernig menn fara með eign eftir að hún hefur verið keypt getur það haft neikvæð áhrif á gengi útboðsins og voru nefnd mörg dæmi í því samhengi. Þetta var sú leið sem við ákváðum að fara og meiri hlutinn kvittaði upp á af því að menn töldu að þarna væru menn að fá hæsta verðið. Ég stend enn þá í þeirri trú að svo sé, en ég ítreka það enn og aftur að niðurstaðan var ekki eftir þeim væntingum sem var lagt upp með í mínum huga og því er mjög mikilvægt að þetta verði rannsakað ofan í kjölinn. Í framhaldinu getum við síðan farið að velta því fyrir okkur hvernig við höldum áfram með að minnka eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, en svo það sé sagt að þegar því ferli lýkur einhvern tímann að ríkið hefur selt allan sinn hlut í bankanum, þá er ég og við Framsóknarmenn þeirrar skoðunar að þá verði staðar numið og staðinn vörður um Landsbankann svo lengi sem hægt er. Vonandi verður hann áfram í ríkiseigu og ég tel mjög mikilvægt að þar verði staðar numið í einkavæðingu á fjármálastofnunum hér heima.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag. Vissulega hefði umræðan verið mun betri ef við hefðum verið búin að fá svörin frá Bankasýslunni við spurningum sem fjárlaganefnd spurði fyrir þremur vikum síðan.