Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður segir að við hefðum átt að sjá eitthvað fyrir. En hvað finnst hv. þingmanni um tímann sem fjárlaganefnd fékk til þess að afgreiða þetta mál? Ráðuneytið setti tímatakmörk á þingið: Gjörið svo vel og skilið þessu fyrir þennan tíma. Punktur. Enda var markmiðið að selja innan þessa glugga sem kemur eftir ársuppgjör. Það var tilbúið og það var markmiðið. Fékk nefndin nægan tíma til að funda og skilja í rauninni allt samhengið í þessu? Það er rosalega margt í stjórnsýslulögum, í lögum um ráðherraábyrgð, í lögum um Bankasýsluna og sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem á að tryggja rosalega margt þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, en bara ef það er farið rétt eftir þeim. Ég sé ekki að þessar brotalamir sem eru að koma upp séu eitthvað sem við hefðum getað komið í veg fyrir og flaggað í einhverjum nefndarálitum af því að þetta er í lögum. Við fengum bara ekki nægan tíma til að átta okkur á nægilega vel á t.d. hvað eru stærri hluthafar, hvað var meint með því. (Forseti hringir.) Það vannst ekki tími til að spyrja nánar út í það. Hvað finnst hv. þingmanni um tímann sem þingnefndin fékk?