Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Grein sem ég fékk birta í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum hafði yfirskriftina „Moldviðri“. Ég var að vísa til þess að búið væri að þyrla upp miklu ryki í kringum þessa bankasölu og framkvæmd hennar og mér fyndist ástæða til að við reyndum að horfa í gegnum það ryk og átta okkur á því hverjar helstu staðreyndirnar væru og hvað við værum raunverulega að gera.

Það er kannski ástæða, virðulegur forseti, til að hverfa aftur til ársins 2012 til að hafa einhverja heild í þessari sögu. Við erum að framkvæma þessa sölu á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2012, nr. 155/2012, sem þáverandi ríkisstjórn undirbjó og hv. þingmaður, þáverandi fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, flutti sem frumvarp í þinginu. Eftir þeirri löggjöf störfum við og hún skapar umgjörðina í kringum þetta verk sem við höfum nú framkvæmt, tvo áfanga í sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Það er líka ástæða til að rifja það upp, virðulegi forseti, að ríkissjóður hefur núna selt hluti í bankanum fyrir 108 milljarða kr. Það eru gríðarlega miklir peningar og mjög mikilvægt að losa þessa fjármuni og nota í þörf verkefni, að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs, lækka til framtíðar skuldabyrði ríkissjóðs, geta varið áfram fjárfestingarstigið, geta varið áfram þau verulega auknu útgjöld sem hafa verið lögð til ýmissa málaflokka, ekki síst á sviði velferðar- og menntamála til lengri tíma og koma þeim fjármunum í vinnu með þeim hætti.

Við getum líka rifjað upp, virðulegur forseti, að þegar hæstv. núverandi fjármálaráðherra settist í fjármálaráðuneytið 2013 í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði ekki verið sterkur fókus á hvernig ætti að fara með slitabúin, hvernig ætti að taka á þeim, hvernig ætti að greiða úr þeirri flækju sem hafði skapast í kjölfar hrunsins og varla hægt að finna staf á blaði um það. Sú vinna sem unnin hefur verið síðan hefur skilað okkur því að búið er að selja eignarhluti ríkisins í þessum banka sem féll ríkinu í skaut. Við getum deilt um það hversu mikið ríkið eða almenningur lagði til þess en veruleikinn er einfaldlega þessi: Úr þessum eignarhluta er búið að gera núna 300 milljarða kr. og það munar um minna, þegar við erum að reka ríkissjóð með þeim halla sem raun ber vitni, til að grípa undir efnahagslífið og samfélagið á tímum Covid-faraldurs.

Rétt eins og fleiri þingmenn hafa komið inn á í dag finnst mér ástæða til að staldra við núna og rifja upp að hv. þm. Eyjólfur Ármannsson ræddi um gríðarlegan hagnað bankanna á síðasta ári. Mér finnst alltaf mjög gott að við séum að ræða um það vegna þess að sú staðreynd sem birtist í þeim mikla afgangi sem varð í rekstri bankanna á síðasta ári endurspeglar, finnst mér, fyrst og fremst góðan árangur við að halda utan um efnahagslífið á þessum Covid-tímum. Stærsti hluti þess afgangs sem bankarnir voru að skila er til kominn vegna þess að menn voru að fara yfir lánasöfnin sín og draga til baka þar sem menn höfðu fært niður af verðmætum útlána sinna. Það er ekki svo að það hafi verið fyrst og fremst undirliggjandi góður rekstrarárangur þessara banka sem skapaði þann hagnað.

Það má líka rifja upp að ríkissjóður hefur á undanförnum árum tekið tugi milljarða í arð út úr þessum bönkum, m.a. þeim banka sem við ræðum hér, sem var líka einskiptishagnaður á hverjum tíma og ekki hægt að segja að sé dæmi um hversu arðvænlegt það er að eiga og reka banka.

Virðulegur forseti. Mér finnst ástæða til að halda nokkrum þáttum til haga til að við sjáum í gegnum það moldviðri sem búið er að þyrla upp í kringum þessa sölu. Verðmæti hluta ríkissjóðs hefur aukist umtalsvert í kjölfar frumútboðs síðastliðið sumar. Hluthafar í bankanum eru núna yfir 15.000 og stærstu hluthafarnir utan ríkissjóðs eru lífeyrissjóðir og aðrir öflugir langtímafjárfestar. 14 stærstu hluthafarnir eiga 77% bankans. Fimm stærstu hluthafarnir eru ríkissjóður Íslands, sem á enn 42%, virðulegur forseti, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi, Capital Group og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Aðrir eiga mun minna. Þetta eru þeir 14 stærstu hluthafar sem eiga 77% af bankanum.

Söluferlið er framkvæmt í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og fyrir þeim lögum mælti, eins og ég sagði áðan, hv. þm. Oddný Harðardóttir, þáverandi fjármálaráðherra. Markmiðið með sölunni var ekki síst að armslengd væri á milli stjórnmálamanna og faglega skipaðrar Bankasýslu við sölumeðferð. Þannig segir m.a. í greinargerðinni:

„Með því að fela sérstakri ríkisstofnun, Bankasýslu ríkisins, meðferð eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum og að koma fram með tillögur til ráðherra um sölu þeirra eignarhluta var ætlunin að tryggja hlutlægni við meðferð þessara mála.“

Virðulegi forseti. Þarna undir liggur grundvallaratriði. Þarna liggur undir einn aðalmáttarstólpinn í þessu ferli sem við megum ekki horfa fram hjá: Það er hlutverk Bankasýslunnar að framkvæma sölu og hlutverk Bankasýslunnar að leggja fram tillögu. Það er hún sem tryggir að þetta sé framkvæmt og hún á að gera það á grundvelli hlutlægra tillagna. Vegna þessarar armslengdar er það ekki hlutverk ráðherra og ráðherra hefur ekki aðgang að því að farið var ítarlega yfir upplýsingar um einstaka tilboð, fjárhæðir, verðbil, niðurskurð í úthlutun o.s.frv. Þessum þáttum er með lögum útvistað til Bankasýslunnar. Bankasýslan hefur hins vegar gefið út að áskriftir bárust frá 209 aðilum og 207 fengu úthlutun. Bankasýslan gaf sömuleiðis út fréttatilkynningu við upphaf útboðsins 22. mars sem fjallað var um í flestum miðlum. Öllum sem með lögum um töldust fagfjárfestar var heimilt að skila inn áskriftartilboðum og enginn var handvalinn eftir því sem við best vitum.

Hafa verður þessa framkvæmd í huga þegar við ræðum þetta mál vegna þess að fyrsta gagnrýnin á þessa sölu sem fram kom var einmitt á þann veg að kaupendur hefðu verið handvaldir. Þegar það var hrakið þá var eiginlega orðinn glæpur fjármálaráðherra að hafa ekki farið yfir tilboðin og að hafa ekki handvalið kaupendurna. Ég skil það svo að Fjármálaeftirlitið beini nú fyrst og fremst skoðun sinni að þeim söluráðgjöfum sem unnu með Bankasýslunni að framkvæmd á sölu hlutanna þar sem fyrst og fremst hefur verið talað um kaup söluráðgjafanna sjálfra í útboðinu. Við fáum engar efnislegar upplýsingar um þessa athugun þar sem hún snýr ekki með beinum hætti að þinginu. Ég ætla að bíða niðurstöðu hennar vegna þess, virðulegur forseti, og það hef ég áður sagt í umræðu um sölu Íslandsbanka á opinberum vettvangi, að það sem stakk mig og stingur mig voru smærri kaupendur og tengsl þeirra við söluráðgjafana og jafnvel söluráðgjafarnir sjálfir. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það að þar er ég gagnrýninn. Stjórnarandstaðan og ekki síst samstarfsfólk þáverandi ráðherra, sem ég hef nefnt áður, sem mælti fyrir þessum lögum, heldur því fram að ferlið hafi farið á sjálfstýringu, ráðherra hafi sýnt vanrækslu og fleira í þeim dúr með því að skoða ekki sjálfur einstaka tilboð og samþykkja þau heldur fela það Bankasýslunni. Eins og ég sagði áðan var því fyrst haldið fram að kaupendur hefðu verið handvaldir en þegar það reyndist ekki rétt var skipt um gír og sagt að hann hefði átt að velja kaupendur. Í þessum málflutningi er því m.a. haldið fram að 4. gr. laganna kveði á um að ráðherra beri að skoða tilboðin, sem er alrangt eins og þingmennirnir vita. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta.

Ýmsar leiðir koma til greina við sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, t.d. almennt útboð verðbréfa, skráning bréfa fjármálafyrirtækis á skipulegum verðbréfamarkaði eða tilboðssala. Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.“

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að við höldum þessum staðreyndum til haga og reynum að horfa í gegnum moldviðrið sem þyrlað hefur verið upp í kringum þessa umræðu alla og í kringum þessa bankasölu. Enn einu moldrykinu átti að þyrla upp þegar því var haldið fram í umræðu, m.a. í fjölmiðlum, að þeir sem hefðu fengið þau gæði að kaupa hefðu þegar selt sig til baka og innleyst mikinn hagnað.

Rétt eins og hv. þingmaður sem hér talaði áðan lýsti ágætlega eðli hlutabréfamarkaðar þá er það alveg rétt að það voru engin tímamörk sett um hversu lengi kaupendur þyrftu að halda hlutum en samkvæmt fréttatilkynningu frá Bankasýslunni sem send var út um páskana hafði fjöldi hluthafa aukist um 125 frá útboðsdegi og meiri hluta fjárfesta í útboðinu haldið eða aukið eignarhlut sinn. 34 fjárfestar höfðu minnkað eignarhlut sinn að hluta en svo voru um 60 sem birtust ekki á hluthafalista og gætu verið fjölmargar skýringar á því eins og nánar er rakið í tilvitnaðri fréttatilkynningu.

Virðulegur forseti. Það er nokkur ljóður á umræðunni hér í dag að við gátum ekki fengið Bankasýsluna á fund fjárlaganefndar í morgun eins og við höfðum ætlað. Ég ætla ekki að halda áfram að harma það neitt sérstaklega, það þýðir ekkert, dagurinn er liðinn, en við hefðum sannarlega getað haft betri og upplýstari umræðu um ýmis atriði eins og hvernig frágangur Bankasýslunnar var og hvernig þær reglur sem hún setti söluráðgjöfum sínum voru undirbúnar. Hvernig fór úthlutunin og niðurskurðurinn fram? Hvaða tilboð voru hærri eins og fréttir eru fluttar um? Við höldum ekki á neinni vissu í þessum efnum. Þetta er allt saman einhvers staðar í kosmosinu sem einhverjar lausafréttir. Þangað til höfum við ekki þau svör í höndunum að við getum með heildstæðum hætti skapað okkur almennilega mynd af því sem þarna fór fram og mjög vont að við séum að fella einhverja stórudóma úr ræðustóli Alþingis, í það minnsta á þessari stundu.

Ég vil, virðulegur forseti, bara undirstrika að við megum aldrei missa sjónar á því markmiði okkar að koma ríkinu frá atvinnurekstri í þessu landi sem það þarf ekki að halda á. Mér finnst það vera kjarninn í því sem við ættum að vera að ræða hér, að við getum undirbúið eða útbúið með þeim hætti að hér virki hlutabréfamarkaður, að fólk sjái sér hag í því að fjárfesta í hlutabréfum til að ávaxta sparnað sinn og taka þannig þátt í atvinnulífi. Við getum ekki til lengri tíma ætlast til þess að ríkið haldi á stórum atvinnufyrirtækjum og mikilvægum þess vegna, heldur að við getum treyst fólki til að eiga þessi fyrirtæki og reka þau. Kjarninn sem við ættum miklu frekar að vera að ræða er hvaða hlutverki ríkið ætli að gegna í atvinnurekstri hér á Íslandi. Þar er sala Íslandsbanka mikilvægur þáttur í að efla hlutabréfamarkaðinn og koma á dreifðu eignarhaldi.

Vegna orða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um samkeppnisstöðu er það ekki svo að samkeppnisþátturinn hafi aldrei verið tekinn fyrir. Í þeim umræðum eða svörum eða greinargerðum sem hv. fjárlaganefnd hefur í það minnsta rýnt og sent frá sér þá er það þetta dreifða eignarhald og að gera ekki lífeyrissjóðina endilega að aðaleigendum Íslandsbanka sem við vorum einmitt að reyna að forðast með því að reyna að dreifa eignarhaldinu með þeim hætti sem hefur þó tekist. Allir stórudómar um framkvæmd þessarar sölu held ég að verði að fá að bíða þangað til við komum lengra fram í ferlið og sjáum betur þegar rykið fer að setjast í kringum þetta, virðulegur forseti.

Ég er að sjálfsögðu einn af þeim þingmönnum sem finnst að málinu hafi verið ágætlega fyrir komið í fyrsta lagi er varðar að biðja Ríkisendurskoðun að fara yfir þetta ferli og í öðru lagi er varðar þann þátt að Fjármálaeftirlitið skoði starfshætti söluráðgjafanna. Fyrr en þær niðurstöður liggja fyrir held ég að við getum ekki sagt að það sé forsvaranlegt að beita sérstakri rannsóknarnefnd Alþingis, enda er það þannig frágengið í lögum um rannsóknarnefndir og í greinargerð sem fylgdi þeirri löggjöf á sínum tíma að þær eigi einungis að nota í undantekningartilfellum og það sé ekki fyrsti kostur að grípa til þeirra. Með því er ég ekki að segja að ég hafni því um aldur og ævi að það verði einhvern tímann rannsóknarnefnd sem fari yfir þetta ferli heldur að segja að við verðum að gera hlutina í réttri röð, við verðum að geta talað um þessi mál eins og þau raunverulega eru.