Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:58]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sumu leyti tekið undir það að það er ekki ákjósanlegt að við séum að ræða um hluti sem við vitum ekki svörin við. Hér kemur fólk engu að síður upp vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra mætir ítrekað í viðtöl og talar um að ekkert hafi farið úrskeiðis. Samt erum við öll að bíða eftir þessum upplýsingum. Hlutverk minni kaupenda í útsöluverði — já, þetta eru auðvitað bara getgátur og að einhverju leyti, myndi ég kalla, eftiráskýringar en ég ætla ekki að setjast í dómarasæti hér. Varðandi erlendu aðilana þá er þetta vitað. Það er hægt að skoða listann hjá Íslandsbanka og sjá að þessir erlendu sjóðir eru ekki lengur skráðir. Þetta eru opinberar upplýsingar ef fólk er t.d. hluthafar í bankanum.

Mig langaði að lokum til að spyrja hvort hv. þingmaður deili ekki þeim skilningi hv. formanns fjárlaganefndar og flestra í fjárlaganefnd að það hafi verið stórir kjölfestufjárfestar, langtímafjárfestar, sem ættu fyrst og fremst að vera í þessum hópi líkt og 80% landsmanna virðast líka telja.