Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:09]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég segi bara í upphafi, virðulegur forseti: Ég held að samkeppni aukist þegar við brjótum upp eignarhald á tveimur þriðju hlutum bankamarkaðarins, að tveir stærstu bankarnir í eigu ríkisins séu nú komnir með eigendahóp sem er fjölbreyttur og stór, frekar en að ríkið haldi á tveimur bönkum. Mér finnst þetta svar liggja í augum uppi, að þetta sé fyrsta grundvallarskrefið sem við tökum til þess að auka samkeppni á bankamarkaði.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, vil ég segja: Það kemur mjög skýrt fram í skrifum Samkeppniseftirlitsins vegna bankasölu að varast beri stóra ráðandi eignaraðila, sérstaklega lífeyrissjóði, sem eru hér alltumlykjandi á okkar fjármálamarkaði og okkar atvinnulífi, að það sé annar þáttur sem við þurfum að horfa til til að efla samkeppni á bankamarkaði. (Forseti hringir.) Að öðru leyti ætla ég ekkert að lýsa mig ósammála þeim þáttum sem hv. þingmaður taldi hér upp efnislega (Forseti hringir.) um samkeppnisskort, þjónustukostnað og slíka þætti.