Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi stóra aðila á markaði, eins og lífeyrissjóðina, sem eigendur bankanna, núna eru ýmsu smáu aðilarnir sem keyptu í þessu lokaða útboði búnir að selja og líka erlendu aðilarnir, eins og kom fram í máli hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur. Þeir hafa verið að selja sig strax út úr bönkunum. Hverjir eru að kaupa? Það eru lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir eru einfaldlega að kaupa á hærra verði. Þeir sem borga hagnað þeirra sem tóku þátt í lokaða útboðinu eru lífeyrissjóðirnir. Af hverju var þeim ekki boðið að kaupa meira? Þeir óskuðu eftir að kaupa meira. Núna þurfa þeir að kaupa á miklu hærra verði og þeir sem borga hagnaðinn, sem söluaðilar sem fengu að taka þátt í þessu lokaða útboði fá, eru lífeyrissjóðirnir. Auðvitað átti að selja þeim strax í upphafi. Það var ekki gert.

Annað sem er líka vandamál í þessu eru skilyrðin og stjórnarandstaðan er sökuð um að þyrla upp moldviðri um að ráðherrann ætti að handvelja þá sem fengju að kaupa. Það sem söluráðgjafarnir voru að gera var að þeir voru að hringja í vini sína og bestu kúnnana og (Forseti hringir.) bjóða þeim að kaupa af því að það voru engin alvöruskilyrði. (Forseti hringir.) Kannski getur hv. þingmaður upplýst þingheim um það hvaða önnur skilyrði voru sett en þau að þetta væru fagfjárfestar. (Forseti hringir.) Ég veit ekki um nein skilyrði og það hafa engin komið fram.